145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:28]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ágæta spurningu.

Ég er þeirrar skoðunar að lausnin varðandi Úkraínu muni tengjast mögulegri lausn í Sýrlandi. Rússar koma að báðum þessum málum með einum eða öðrum hætti og ég held að að lokum verði ákveðin tengsl þarna á milli. Að þessu sögðu þá held ég að Krímskagi verði ekki aftur hluti af Úkraínu. Ég held að það sé útséð með það. Þar verður áframhaldandi eins konar „frozen conflict“ eins og við sáum í Nagorno-Karabakh og á fleiri stöðum og það eru mjög litlar líkur á því að Krímskagi verði aftur hluti af Úkraínu.

Hvað varðar austurhluta Úkraínu, þá erum við að tala um Donetsk og Luhansk og svæðin þar í kring, þá er ég öllu bjartsýnni. Ég hef þá trú að niðurstaðan verði að lokum sú að þessi héruð fái ákveðna sjálfsstjórn í sínum málum, verði áfram hluti af Úkraínu, það verði niðurstaðan, en með mjög ákveðna sjálfsstjórn í ákveðnum málum sem þau leggja áherslu á. Það er mín skoðun að þetta muni enda á þann hátt.