145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skömmu eftir hryðjuverkin í París þá var frétt þar sem vísað var í ummæli Frakklandsforseta, eftir að hann hafði m.a. verið í samtölum við Pútín Rússlandsforseta, þar sem hann sagði að hinum gagnkvæmu þvingunaraðgerðum Rússa og Vesturlanda mundi að öllum líkindum linna fyrr en menn hygðu. Það vakti undrun mína að þessi ummæli forsetans flugu ekkert víða, alls ekki hér á Íslandi og ekki var mikið veður gert úr þeim erlendis. Ég las úr þessu að menn væru að reyna að ná alslemmi sem fælist í því að menn næðu einhvers konar samkomulagi um Úkraínu og Krímskagann annars vegar, sem líkast til yrði á þeim nótum sem hv. þingmaður greindi hér frá, þ.e. að Krím yrði „frozen conflict“-svæði, með leyfi forseta, eins og ýmis þau önnur átakasvæði sem við höfum séð, en að Rússar mundu virða samkomulög sem hafa verið gerð varðandi austurhlutann og þeir mundu að svo stöddu ekki aðhafast neitt frekar, enda er það viðurhlutaminnst fyrir þá og kostnaðarminnst. En á hinn vænginn yrði líka eins konar samkomulagi náð með hvaða hætti þeir ásamt öðrum sem eru á vellinum í Sýrlandi mundu haga sínum aðgerðum. Nú er ég ekki endilega að segja að þær aðgerðir séu það besta í stöðunni sem hægt er að grípa til til þess að ná fram lausn. Ég held að það sé pólitísk lausn þar sem allir komi að og það sé algjörlega klárt að súnnítar fái sinn rétt. Það er ekki síst þeirra hlutur sem hefur leitt til þess hver staðan er þar.

En ég vildi bara segja það að ég er sammála hv. þingmanni. Telur hann að það sé hugsanlegt að við sjáum einhverja svona þróun á fyrri helmingi þessa árs?