145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er kosturinn við hv. þm. Ögmund Jónasson að hann skefur ekkert utan af skoðunum sínum. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann í samhengi við það sem hann velti upp varðandi það við hvaða aðstæður hægt er að skipta um stjórn í ríkjum og jafnvel mynda nýtt ríki eða ríkjahluta: Er þá að hans mati til dæmis mögulegt að tiltekið ríki fari með hervaldið og skeri skika af landi og sturti síðan þar inn fólki og láti svo fara fram atkvæðagreiðslu og þegnarnir sem þar eru ákveði þá að búa til sjálfstætt ríki? Er það í lagi? Er það aðferð sem við getum skrifað upp á? Ég er ekki alveg viss um það. Ég nefni þetta kannski ekki í sambandi við Krím heldur það dæmi sem hann notaði líka til stuðnings máli sínu, sem var Kýpur.

Ef við komum síðan að Krím og Úkraínu er það þannig að mér fer eins og Bretunum sem hv. þingmaður vísaði til, það rýkur upp af mér út af Írak en af allt öðrum ástæðum, af nákvæmlega sömu ástæðum og rauk upp af hv. þm. Ögmundi Jónassyni árum saman út af Írak. Ég og hv. þingmaður vorum algjörlega sammála um Írak, um innrásina sem þar var gerð, og í dag sjáum við hrapallegar afleiðingar hennar. En herra trúr, ég get samt sem áður ekki annað en fordæmt athæfi Rússa, bæði varðandi austurhluta Úkraínu og líka Krím, þótt segja megi að öðru máli gegni um Krím. En er það þá í lagi, herra forseti, að af því það er haldin atkvæðagreiðsla á Krím og niðurstaðan er með tilteknum hætti megi málin vera í þessum farvegi? Er að minnsta kosti (Forseti hringir.) ekki lágmarkskrafa að menn eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson eða aðrir sem eiga sæti í Evrópuráðinu séu þar í kosningaeftirliti og sjái til þess (Forseti hringir.) að atkvæðagreiðslan sé lögleg? Er það ekki lágmarksskilyrði?