145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:47]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, það er lágmarksskilyrði. Atkvæðagreiðsla sem fram fer undir hæl Vladimírs Pútíns er ekki marktæk, að sjálfsögðu ekki. En ég vísa í atkvæðagreiðslur sem höfðu farið áður fram á Krím og yfirlýsingar þingsins á tíunda áratugnum um sjálfstæði Krímskaga. Þeim var þá hótað hernaðarvaldi frá Kiev, frá Kænugarði, af þáverandi forseta. Það hefur verið upplýst og það hefur verið staðfest.

Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ekkert einhlítt í þessum efnum og ég skrifa ekki upp á þá aðferðafræði sem hann lýsti. En þegar við horfum til samkenndar sem myndast í heiminum á milli þeirra sem hafa völdin í ríkjum um að undir öllum kringumstæðum varðveita landamærin, þá hef ég mínar efasemdir. Við náttúrlega munum úr Afríkusögunni, Katanga frá Kongó á sjöunda áratugnum og Biafra frá Nígeríu. Ætli Katanga sé ekki á stærð við Frakkland og Þýskaland, þetta litla hérað í Afríku sem vildi verða sjálfstætt? Ég man ekki hver stærðarhlutföllin þarna eru. Nei, það er ekkert einhlítt í þessum efnum, alls ekki.

Varðandi Íraksstríðið vorum við sammála um að það hefði verið forkastanlegt að ráðast þar inn. Fordæmi ég atferli Rússa? Ég fordæmi allan yfirgang. Ég fordæmi hernaðaríhlutun. Ég fordæmi það þegar menn fara ekki fram á lýðræðislegan hátt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann á móti: Fordæmir hann íhlutun vestrænna ríkja þegar lýðræðislega kjörnum forseta var steypt af stóli með valdi í Úkraínu í byrjun árs 2014? Fordæmir hv. þm. Össur Skarphéðinsson (Forseti hringir.) bannfæringu kommúnistaflokks Úkraínu núna? Fordæmir hann þetta fortakslaust?