145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Að því er lýtur að síðustu spurningu hv. þingmanns um það hvort ég fordæmi bann á kommúnistaflokknum í Úkraínu og notkun á merki hans þá er það algjörlega klárt að ég fordæmi það til dæmis að stjórnmálahreyfingum sem eru byggðar á lýðræðislegri þátttöku fólks sé bannað að starfa. Ég fordæmi að þær fái ekki að nota þau tæki og tól sem beitt er í friðsamlegum tilgangi. Að því gefnu að það sé í fullkomlega friðsamlegum tilgangi er ég þeirrar skoðunar að allar hugmyndir og stjórnmálaskoðanir eigi að fá að keppa gagnvart fólkinu í því landi sem það býr í. Ég er þeirra skoðunar að almennt sé reglan sú að það eigi ekki að banna stjórnmálahreyfingar.

Spurningin sem hv. þingmaður beindi til mín á undan var akkúrat sú sem ég vildi aðeins reifa hér. Ég er ekki sannfærður um það sem hv. þingmaður sagði að þeir atburðir sem urðu í Úkraínu hafi fyrst og fremst verið fyrir atbeina vestrænna afla. Hann tiltók sérstaklega þrjú, Bandaríkin, Evrópusambandið og NATO. Um Evrópusambandið er það að segja að það kann vel að vera að Evrópusambandið hafi tekið þátt í því af einhvers konar athugunarleysi, reynsluleysi, eins og mér fannst gæta hjá sumum forustumönnum Evrópusambandsins, að ýta undir væntingar sem voru ekki raunhæfar, t.d. um það að Úkraína gæti gengið rakleiðis inn í Evrópusambandið. Það var aldrei raunhæft. Við vitum það. En Evrópusambandið hefur að öðru leyti ekkert kynt undir. NATO hefur svo best ég viti engan möguleika á því að kynda undir.

Hitt er alveg klárt að einstök ríki eins og Bandaríkin og Bretland og fleiri hafa í sögunnar rás orðið uppvís að slíku. Það er vel hugsanlegt en ég þekki það ekki. Hitt fullyrði ég (Forseti hringir.) að það er algjörlega út í hött að halda því fram að atburðirnir í Úkraínu hafi fyrst og fremst orðið vegna þess að það var einhvers konar utanaðkomandi þrýstingur. Þetta var alveg augljós vilji (Forseti hringir.) fólks sem braust fram.