145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málið í lýðræðisríkjum er að vilji fólksins er margvíslegur. Það voru margir sem vildu steypa þeim lýðræðislega kjörna forseta af stóli sem þá sat, það er alveg rétt. Við vitum að þar voru líka að verki fasísk öfl sem hafa haft sig mjög í frammi. (ÖS: Fengu ekkert í kosningum.) Fengu ekkert í kosningum en fengu miklu fram náð með ofbeldi sínu íklæddir nasistabúningum og fasískum merkjum o.s.frv. Það er staðreynd. Við vitum líka hvernig farið var með fólkið sem var myrt í Odessa þegar það var brennt inni og málið aldrei rækilega rannsakað. Síðan þekkjum við það þegar verið er að banna þessar hreyfingar.

Lýðræðislegur vilji fólks er af margvíslegum toga. Hlutverk okkar í Evrópuráðinu er að reyna að standa vörð um þá umgjörð alla og halda alltaf með mannréttindunum og halda alltaf með lýðræðinu, eins og ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerir og kom ágætlega fram í svörum hans.