145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[14:52]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það gleður mig alltaf þegar við fáum tækifæri til að ræða um störf Íslandsdeilda í alþjóðastarfi. Mér finnst mjög leiðinlegt hve fáir þingmenn taka þátt í þessum umræðum og eru hér viðstaddir því að grunnurinn að mjög mörgum samþykktum sem fara síðan í gegnum þjóðþing okkar á oft uppruna sinn í alþjóðastarfinu.

Mig langar að vekja athygli á einu sem mér finnst mjög athugavert við alþjóðastörfin. Ég hef verið viðloðandi alþjóðastörfin frá því ég kom á þing. Ég skildi fyrst ekki, til dæmis þegar við erum aðilar að samþykktum og ályktunum sem margar hverjar eru mjög góðar, af hverju þær eru ekki síðan gerðar að einhvers konar þingmáli hérlendis, og hef ég rannsakað töluvert hvernig þessu er háttað í öðrum löndum. Til dæmis hefur það verið reynsla mín hjá Alþjóðaþingmannasambandinu um ályktanir þess margar hverjar eða allar, að þar eru náttúrlega mun færri ályktanir samþykktar en hjá Evrópuráðinu og fleiri alþjóðanefndum sem við tökum þátt í. En það virðist sem við í Evrópu séum bara orðin svo hrokafull að okkur finnst við ekki þurfa að gera þær ályktanir sem fulltrúar okkar eru aðilar að og oft mjög virkir í að koma með breytingartillögur eða skrifa þær, að þingmálum, á meðan önnur ríki sem eru yngri en þessi gamalgrónu Evrópulönd eru miklu duglegri við að finna leiðir til þess að gera það.

Mig langar sérstaklega að vekja athygli þeirra sem hér eru á nokkrum tilmælum sem samþykkt hafa verið hjá Evrópuráðsþinginu. Ber fyrst að nefna það sem samþykkt var á öðrum hluta þingfundar frá 24. apríl, tilmæli 2067 og 2045, um fjöldaeftirlit, eða „mass surveillance“. Þetta eru gríðarlega góð tilmæli og sér í lagi er ályktunin sem þessi tilmæli byggja á mjög vönduð og góð. Byggði ég þá ályktun töluvert á þessari ályktun frá Evrópuráðsþinginu, sem ég fékk samþykkta og fékk þann heiður að gera fyrir Alþjóðaþingmannasambandið.

Síðan eru líka tilmæli 2073 sem vert er að skoða, um aukna vernd fyrir uppljóstrara. Hvet ég þingmenn sem hafa áhuga á þeim málaflokkum að skoða þau. Það eru líka mjög margar ályktanir og tilmæli sérstaklega hjá Evrópuráðsþinginu sem mér finnst alveg ofboðslega góður grunnur að því að betrumbæta lagaramma okkar. Því langar mig til að skora á þingmenn sem eru í mismunandi alþjóðanefndum að finna farveg, einn farveg til þess að kanna hvar við stöndum okkur hvað varðar öll þessi tilmæli og ályktanir, þ.e. að fara fram á skýrslu frá ráðherra sem hver ályktun fellur undir. Ég held að það væri gríðarlega góð leið. Það sem ég upplifi oft er að við erum búin að gera margt í þessum ályktunum, en við megum gera betur og við þurfum að kanna hvar við erum stödd því að annars eru þessar ályktanir og alþjóðastarf sem við erum aðilar að til lítils og eiginlega ekki til neins ef við tökum það ekki lengra en bara samþykkja það á einhverjum fundi í útlöndum. Ég veit að margir þingmenn sem eru í alþjóðastarfinu eru sammála mér um þetta. Þess vegna ákvað ég að gera pínulitla tilraun og sjá hvernig það gengur með því að leggja fram beiðni um skýrslu sem kæmi frá innanríkisráðherra út frá ályktun þeirri sem verður fjallað um á eftir, um lýðræði á stafrænum tímum og ógnir gegn friðhelgi einkalífs.

Mig langar svo mikið að við gerum meira við þetta af því að fæstir þingmenn vita af öllu því frábæra starfi sem á sér stað í alþjóðastarfinu. Þar nýtur maður svo góðs af því að fá að vinna með þingmönnum sem hafa kannski möguleika á að sérhæfa sig meira. Við höfum aðgengi að sérfræðingum sem eru jafnvel þeir bestu á sínu sviði. Þess vegna finnst mér mikilvægt að draga það heim í land.

Mig langar líka aðeins að vekja athygli á öðru. Mjög ítarlega er farið yfir til dæmis ályktun um fjöldaeftirlit með almenningi á bls. 7 og hv. þm. Karl Garðarsson kom aðeins inn á það. Mjög ánægjulegt er að sjá hvernig ákveðin málefni speglast í því sem er næst okkur, sem er þá norræna samstarfið, síðan Evrópusambandið og svo alþjóðasamstarfið og jafnvel NATO-samstarfið. Mér finnst að við ættum að finna einhvern farveg þar sem við getum tekið og skoðað hvað það er sem við erum kannski algerlega þverpólitískt að vinna að erlendis til að kalla eftir að eitthvað verði gert með það, hvort sem við mundum gera sameiginlegar beiðnir um skýrslur eða þingsályktanir upp úr því sem við erum að taka þátt í að samþykkja. Ég held að það væri öllum til góða.

Það hefur náttúrlega borið mikið á því í þessu starfi hjá Evrópuráðsþinginu og víðar þeir miklu erfiðleikar sem mannkynið stendur frammi fyrir. Það á kannski rætur sínar að rekja til mikilla breytinga í veðurfari og minnkandi aðgengi að auðlindum, bæði út af alls konar sveiflum í verði á auðlindunum, eins og t.d. olíunni sem margir sem þekkja til kalla hreinlega gjaldeyrisstríð. Því miður er það alltaf þannig, alveg sama hvernig stríð það eru, þá eru fórnarlömbin minni ríki sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Því miður er það mjög stuttur tími sem maður fær í þessum umræðum og að jafnaði eingöngu einu sinni á ári. Þess vegna hefði mér þótt vænt um að sjá fleiri þingmenn í þeim því að í þessu alþjóðastarfi verða þingmenn svo sannarlega reynslunni ríkari. Íslendingar hafa verið mjög duglegir að beita sér eins og kemur fram í skýrslunni og vil ég hrósa fulltrúum okkar í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins fyrir vinnu þeirra og hvetja þá sem fylgjast með störfum Alþingis til að kynna sér þessar skýrslur, því að í þeim er mjög margt merkilegt að finna þó að þær séu kannski ekki mjög lipurlega skrifaðar fyrir almenning. Ef fólk fer inn á vef Evrópuráðsþingsins finnur það þessar ályktanir. Svo er óskandi að við, þjóðþing Íslendinga, séum duglegri í að koma með þessar ályktanir yfir á íslensku þannig að við getum rætt þær betur í okkar almennu þingstörfum.