145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér um skýrslu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2015, en ég á þær sæti.

Mig langar að byrja á því að þakka félögum mínum sem sitja þar fyrir gott samstarf, þó sérstaklega varamanni mínum, Brynjari Níelssyni, sem hefur í flestum tilfellum setið fundi þingsins í forföllum mínum.

En það er ein ferð sem ég fór í sem Evrópuráðsþingmaður á þessu starfsári sem ekki er minnst á í skýrslunni, enda var hún svo sem utan dagskrár. Það var heimsókn í flóttamannabúðir í Tyrklandi þar sem ég fékk tækifæri til þess að kynna mér aðstæður þar í samráði og samstarfi við tyrkneska Evrópuráðsþingmenn.

Í sömu ferð fór ég ásamt sendinefndinni í heimsókn til Líbanon, þá í samstarfi við innanríkisráðuneytið, og síðan enduðum við ferðina á að fara til Sikileyjar og var það gert í samstarfi við ítalskan Evrópuráðsþingmann.

Eins og fram kom í framsöguræðu formanns Íslandsdeildar voru flóttamannamálin í rauninni stærsta einstaka umræðuefnið á þingum ráðsins á þessu starfsári enda augljóst að þar er stórt verkefni á ferðinni. Það var helst á þessum fundum í Evrópuráðsþinginu sem mér birtust áhyggjur Tyrkja sérstaklega, þ.e. tyrknesku þingmannanna, af því sem koma skyldi. Það var áður en vandinn stækkaði til muna í sumar.

Tyrknesku þingmennirnir á Evrópuráðsþinginu hafa verið duglegir við það á undanförnum árum að benda þingmönnum annarra Evrópuríkja á að ef ekkert yrði að gert mundi niðurstaðan verða sú að fólk færi í auknum mæli að streyma til Evrópu. Það kom allt saman á daginn. Evrópa og við sofnuðum á verðinum og gripum ekki til aðgerða strax.

En það sem er lærdómsríkast og stendur í rauninni upp úr eftir þessa ferð er það ákall, bæði þeirra sýrlensku flóttamanna sem ég átti kost á að ræða við, og eins allra þeirra starfsmanna hjálparsamtaka sem við hittum á ferðum okkar, um að aðstoða í nágrannalöndum Sýrlands. Það var númer eitt hjá öllum sem rætt var við. Það má líkja þessu við að það að ef við Íslendingar mundum verða fyrir mikilli náttúruvá og þyrftum að flýja heimili okkar tímabundið mundum við væntanlega vilja fara til nágrannalanda okkar frekar en að fara langt, og reyna að bíða af okkur hamfarirnar þar með það í huga að fara aftur heim sem fyrst.

Það er akkúrat það sem sýrlenskir flóttamenn óska sér, að komast aftur heim. Það er það sem flestir vilja. Nú er hins vegar staðan orðin sú að fólk er búið að vera í nágrannalöndum Sýrlands í fjögur ár, sumir lengur, ef til vill fyrst á flótta innan Sýrlands og síðan í nágrannalöndum Sýrlands og fólk er farið að missa vonina. Það birtist okkur með þeim hætti að fólk er tilbúið að fórna lífinu á litlum, lekum bátum í Miðjarðarhafinu frekar en að vera áfram í vonleysi í nágrannalöndum Sýrlands.

Það er þrennt sem við getum gert til að hjálpa: Það er í fyrsta lagi að aðstoða meira í nágrannalöndum Sýrlands, að taka á móti fleira kvótaflóttafólki frá Sýrlandi og nágrannalöndum Sýrlands, og að tala fyrir friðarviðræðum og lausnum í þessum málefnum.

Frú forseti. Mig langar líka að ræða aðeins um alþjóðastarfið hér í þinginu. Ég tel að full þörf sé á að þingið taki það allt saman til endurskoðunar og umræðu. Hvað viljum við fá út úr þessu? Í hvaða farveg setjum við málin? Hvað verður um þetta allt saman?

Ég er svo heppin að vera formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Við í Vestnorræna ráðinu höfum sérstöðu. Við höfum mjög sterkt vopn. Vestnorræna ráðið er samstarf þingmanna frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Við drögum ályktanir þegar við erum búin að funda og þegar við komum heim hvert og eitt í okkar land leggjum við ályktanirnar fram í formi þingsályktunartillagna. Þess vegna er efnislega sama þingsályktunartillagan samþykkt á þjóðþingum landanna þriggja. Þar er skorað á ríkisstjórnir landanna að fylgja eftir ákveðnum málefnum. Öll vinna okkar ratar því beint í þingsal og yfirleitt eru tillögur okkar samþykktar og rata þannig inn á borð hjá ráðherrum sem sérstök verkefni sem þeim ber að fylgja eftir.

Þegar ég fer á vegum annarra nefnda á fundi í útlöndum þar sem maður leggur á sig mikla vinnu til að fá fram einhverja niðurstöðu verð ég því stundum svolítið vonsvikin yfir því að málið fer ekki áfram. Ég hef átt þess kost að sitja á fundum Norðlægu víddarinnar, sem er einhvers konar samstarf Evrópusambandsins, norrænu ríkjanna, Rússlands og Vestnorræna ráðsins. Á þessum fundum er alltaf gerð ályktun fundarins. Ég var svo lánsöm að fá að stýra þeirri vinnu á síðasta ári. Fundurinn var haldinn á Íslandi þar sem við lögðum meðal annars mikla áherslu á jafnrétti og fleiri mjög mikilvæg málefni. Í það fór mikill tími, mikill sannfæringarkraftur að ná öllum að sama borði. Rússarnir voru kannski erfiðastir, en við náðum árangri.

En hvað verður um þá vinnu? Það verður ekkert um hana. Hún verður bara minning í hugum okkar sem vorum á fundinum, þá aðallega þeirra sem sátu í nefndinni sem bjó til ályktunina. En þetta ratar ekki formlega inn á borð neins til einhvers konar umræðu eða áframhaldandi vinnu.

Það sama á við um norðurslóðavinnuna. Á tveggja ára fresti er haldin stór ráðstefna þar sem þingmenn norðurslóðaríkjanna hittast, fara yfir málin og gera svona ályktanir. Ég veit ekki til þess að þær rati neitt. Það kom aðeins til umræðu á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem haldin var nú um helgina í Grindavík þar sem við náðum að spyrja fulltrúa utanríkisráðuneytisins um þessa tilteknu ályktun Norðlægu víddarinnar. Starfsmaður ráðuneytisins lofaði okkur því að þegar hann mætti til vinnu á mánudaginn mundi hann leita að þessari ályktun og athuga hvort hún hefði dúkkað einhvers staðar upp í ráðuneytinu.

En þetta segir okkur bara að við þurfum að reyna að koma málunum í fastari farveg. Við gætum notað vestnorræna módelið sem einhvers konar fyrirmynd að því sem hægt er að gera. Ég veit ekki alveg hversu hresst embættismannakerfið yrði með það, en ég lofa því að við þingmennirnir sem leggjum á okkur þessa vinnu yrðum mjög kát með að færa umræðuna inn í sali Alþingis á einhvern formlegan og fastan hátt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Efni ráðstefnunnar nú um helgina var lýðræði á norðurslóðum og þá sérstaklega á vestnorræna svæðinu. Við áttum þess kost að hafa hjá okkur mjög færa fyrirlesara. Einn af þeim er Zlatko Savic, stjórnmálafræðiprófessor við háskólann í Ljúblíana í Slóveníu, sem lagði mikla áherslu á þátttöku þingmanna í utanríkismálapólitíkinni.

Þegar ég kom hér inn sem nýr þingmaður hafði ég engan áhuga á því að eyða tíma mínum í utanríkismál. Það skilaði mér engu í kjördæmapólitík minni, það skilaði litlu til kjósenda minna, fannst mér á þeim tíma, og mér fannst það eiginlega bara eyðsla á almannafé. Eftir því sem maður síðan þroskast í starfi og sér að Ísland er ekki eyland og hlutirnir koma manni nú kannski við, mannréttindi og svo framvegis, þá lærir maður að þetta skiptir máli. Við eigum að hafa áhuga á utanríkismálum. Við höfum ekki efni á að hafa það ekki. Það er svo margt sem við getum lært af öðrum og eins að gefa af okkur.

Þess vegna finnst mér mikilvægt að við sem störfum í alþjóðanefndum Alþingis tökum upp umræðu um breytt vinnubrögð og einhvers konar nefndarvinnu á vegum forustu Alþingis um það hvert við viljum sjá starfið stefna í framtíðinni og hvernig við ætlum að nýta þá fjármuni sem best sem við leggjum þó í þetta starf.

Fyrir mér er alla vega óþolandi að fara á fundi og leggja í mikla vinnu í einhverjar ályktanir sem eru bara dægurfluga, þegar þeirra sér hvergi stað í framhaldinu.