145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átti þess kost á Norðurlandaráðsþingi að eiga fund með Anne Brasseur sem leiðir Evrópuráðsþingið og ræddi þessi mál við hana. Ég var svolítið hreinskiptin í orðavali, en þetta var nú samt allt í lagi. Ég tek undir orð hv. þm. Karls Garðarssonar og við í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins ættum kannski að gera okkur verklagsreglur um að setjast árlega yfir ályktanir ráðsins og reyna að velja úr þeim. Auðvitað getum við ekki lagt hér fram hundrað og eitthvað þingsályktunartillögur á grundvelli ályktana Evrópuráðsþingsins, heldur getum við valið úr hverjar við teljum að eigi að koma hér til umræðu.

Þá er eitt vandamál eftir, það er að fá tíma hér í þinginu til að mæla fyrir þessum ályktunum. Það er ekki auðvelt. Ég mæli hér í dag fyrir þremur þingsályktunartillögum frá Vestnorræna ráðinu sem voru lagðar fram í haust. Þetta eru tillögur alþjóðanefndar þingsins þar sem sitja þingmenn allra flokka fyrir utan Pírata. Það eru sex þingmenn, þannig að það eru sex þingmenn sem sitja í þessari nefnd. Og hvar erum við sett í röðina? Við erum sett í röðina eftir þingmannamálum, áherslumálum stjórnmálaflokkanna varðandi þingmannamál. Þar erum við í virðingarröðinni hjá yfirstjórn Alþingis. Þetta gagnrýni ég harðlega og geri það núna bara opinberlega í fyrsta skipti, en þessu þarf að breyta. (BirgJ: Heyr, heyr.)

Nú er tiltölulega stutt eftir af þinginu og þessar tillögur okkar eru þungar og efnismiklar og ég hef miklar áhyggjur af því að þær komist einfaldlega ekki hér í gegnum þingið meðan félagar okkar, þingmennirnir í Færeyjum og á Grænlandi, eru langt komnir með að ná öllum sínum málum í gegn. Þetta er óviðunandi.