145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég heyrði í þann mund sem ég vatt mér í stólinn að fram kom tillaga hér úr þingsal um að menn eins og ég ættu að hafa tvöfaldan ræðutíma. Ég er reiðubúinn til að skoða þá tillögu af kostgæfni. Ég kem aðallega til að þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og notað þennan dagskrárlið til að gera að umtalsefni hvernig við getum komið á framfæri við þingið, og eftir atvikum jafnvel til stefnumótunar með samþykkt, tillögum sem við höfum ýmist tekið þátt í að gera eða samþykkja á erlendum þingum þar sem við sitjum sem fulltrúar Alþingis.

Ég er algerlega sammála þeim sem hér koma og tala í þá veru að það sé í fyrsta lagi nauðsynlegt að þingið sjái til þess að lykilsamþykktir séu þýddar og lagðar fyrir þingið eða komi til þingmanna; í öðru lagi reifuðu hv. þingmenn Unnur Brá Konráðsdóttir og Birgitta Jónsdóttir nauðsyn á því að jafnvel í sumum tilvikum yrðu þær líka lagðar fyrir þingið sem eins konar stefnumótun.

Ég vil í þriðja lagi bæta því við að ég tel að það sé eiginlega svartalágmark að slíkar tillögur séu ræddar í utanríkismálanefnd. Nú er það stundum þannig að þegar tillögur eru samþykktar á stórum, alþjóðlegum þingum þar sem fjöldi fulltrúa margra þjóðþinga kemur saman þá er hugsanlegt að niðurstaðan sé í andstöðu við það sem er vilji ríkjandi meiri hluta. Þess vegna tel ég að fyrsta skrefið varðandi meðferð slíkra tillagna sé að ræða þær í utanríkismálanefnd og hún síðan eftir atvikum meti hvort það sé í samræmi við þá stjórnarstefnu sem ríkir á hverjum tíma, eða í samræmi við mikilvægi málsins, að koma því í tillöguformi til þingsins. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gerði réttilega að umræðuefni þá kvöl sem felst í því að reyna að pína mál á dagskrá frá Vestnorræna ráðinu. Nú hefur Vestnorræna ráðið aukist verulega að þyngd og mikilvægi á síðustu árum og ekki síst fyrir atbeina hv. formanns Unnar Brár Konráðsdóttur. En herra trúr, ef það er erfitt að koma á dagskrá málum frá heilum ráðum þriggja þjóða, hvað þá með okkur ræflana, þingmennina, sem hér liggjum inni með kannski sex, sjö mál jafnvel árum saman án þess að fá nokkru sinni ráðrúm til að ræða það?

Ég hef hér ásamt hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og mörgum öðrum þingmönnum lagt fram mál sem tók mig hálft sumar að vinna um samstarf við Grænland. Það eru tvö sumur frá því að ég lauk þeirri tillögu og fékk ýmsa þingmenn til liðsinnis. Það hefur aldrei fengist rætt. Þó að ég geri kannski ráð fyrir að sitja hér fjögur til átta ár til viðbótar veit ég ekki hvort tími vinnst til að ná því til umræðu.

En í alvöru talað, án gamans, þetta er forkastanlegt. Ég segi stundum að þetta þing umbuni letingjum. Þeir sem leggja á sig mikla vinnu við að skrifa fjölmörg þingmál — eins og til dæmis sá sem hér stendur sem af einskærri þing- og sköpunargleði hangir enn í þessu starfi — fá enga umbun fyrir það, ekki einu sinni þá litlu að geta séð sínar eigin tillögur ræddar, svo að maður fari nú ekki fram á að þær séu samþykktar.

Hvað er það sem þátttaka í alþjóðlegu starfi gefur manni? Mikla innsýn í gang alþjóðamála. Fyrir menn með brennandi áhuga, eins og ég, á utanríkismálum gefur það manni að minnsta kosti færi á að ná mikilli þekkingu við að hlusta og ræða við fólk sem er koma beint úr hringiðu atburða, stundum frá styrjöldum. Þetta skiptir miklu máli. En það er annað sem það gefur Alþingi Íslendinga. Ef hv. þingmenn skoða sögu utanríkisráðherra síðustu tveggja áratuga, liggur mér við að segja, þá eru þeir allir aldir upp af þinginu við störf á alþjóðavettvangi. Ég ætla að leyfa mér að spá því að þeir utanríkisráðherrar sem kunna að taka við á næstu árum sitji hugsanlega hér í salnum, þ.e. fólkið sem er að ræða þessi mál. Bara svo að menn tapi ekki sjónum á því að þetta hefur mikið gildi til að búa til þingmenn sem geta sinnt því starfi að tala og semja fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Þetta er að ýmsu leyti, eins og nefndir þingsins, skóli í þeim fagsviðum sem menn eru að starfa við.

Þetta var nú um formið. Um það efni sem hér hefur verið rætt vildi ég hafa langt mál. Af hverju? Vegna þess að það er mjög sjaldgæft að það náist að taka hér umræður um þau mál sem brýnust eru á alþjóðavettvangi. Mál sem varða okkur miklu. Þær skýrslur sem hafa verið fluttar í dag og verða kannski fluttar á eftir og voru fluttar í síðustu viku báru þess öll merki að það er sama málið sem alls staðar hefur verið efst á baugi í umræðum okkar, þ.e. deilan sem annars vegar tengist Úkraínu og hins vegar Sýrlandi. Og þær eru skyldar. Undir niðri liggja þræðir þar á milli. Það hefur komið fram að þetta eru mál sem varða gríðarlega hagsmuni fyrir Íslendinga. Samt er þetta eiginlega aldrei rætt hér á hinu háa Alþingi, svo merkilegt sem það nú er. Því að hér ræða menn helst ekki utanríkismál.

Hv. þm. Karl Garðarsson flutti hér mjög efnismikla og góða ræðu um starfsemi Evrópuráðsins. Ég sat sjálfur árum saman í Evrópuráðinu og veit hversu mikla skólun það gefur manni, mikla innsýn í réttindabaráttu í löndum sem ekki hafa náð jafn langt og okkar. Þær umræður sem hafa síðan orðið af hálfu annarra þingmanna sýna það hvílík hringiða atburðarásar liggur um Evrópuráðið varðandi mannréttindamálin. Það eru örfá atriði sem ég vildi drepa á.

Ég hefði til dæmis viljað eiga orðastað við hv. þm. Ögmund Jónasson um Krím. Ég er honum ósammála í grundvallaratriðum um það hvað er heimilt og hvað er ekki heimilt. Bara svo að ég segi það fyrir mína hönd og míns flokks þá er ég algerlega sammála þeim sem segja að það verði að bregðast fast við því þegar stórt ríki eins og Rússland fer yfir landamæri, efnir þar til uppþota og óeirða eins og eru jafnvel enn í dag að gerast í Austur-Úkraínu og hrammsar jafnvel til sín skika innan landamæra þjóðar. Hverjir eru það sem fyrst og fremst eiga að stappa niður fæti og vera á varðbergi? Það eru litlar þjóðir. Hverjar í hópi hinna smæstu þjóða eiga að standa fast á því að alþjóðalög séu virt? Auðvitað þær sem, eins og Ísland, hafa ekki her sér til varnar. Okkar vörn er í alþjóðlegum sáttmálum, alþjóðlegum samningum. Þar er mesta fullveldisvörn okkar. Ekki síst fyrir þá sök að við höfum sökum smæðar lítil tök á að verja okkur. Það er mjög mikilvægt að þingmenn skilji þetta og að Íslendingar skilji. Við þurfum alltaf að taka okkur stöðu með smáum þjóðum sem verið er að kúga í skjóli einhvers konar hervalds eða kúgunartækja af öðrum toga. Þetta er mikilvægt. Jafnvel þó að það hafi í för með sér að fórna þurfi skammtímahagsmunum verða menn að meta það í ljósi langrar sögu, bæði aftur á bak og líka þegar menn horfa inn í tímann. Við verðum alltaf að taka okkur stöðu á þessum hóli.

Um það með hvaða hætti við höfum tekið þátt í þeim refsiaðgerðum gagnvart Rússlandi er hægt að deila. Ég hef ekki kosið að koma hér með mínar helstu aðfinnslur um það mál en ég segi hins vegar alveg skýrt: Það er meiri háttar utanríkismál og hefði í upphafi máls átt að ræða í utanríkismálanefnd, bara svo að það liggi skýrt fyrir. Ég tel að það hefði mátt standa öðruvísi að því. Það breytir ekki hinu að ég hefði aldrei lent öðruvísi en þarna megin svo að það liggi algerlega skýrt fyrir.

Á þeim vettvangi sem ég hef starfað hafa menn rætt mikið hvort þessar aðgerðir hafi skilað einhverju. Hv. þm. Karl Garðarsson sagði að þær hefðu skilað ýmsu. Hann benti á veikingu rúblunnar, ýmsar efnahagslegar afleiðingar málsins. Til skamms tíma dró ég það mjög í efa. Ég get fallist á að loks liggja fyrir gögn sem benda til þess að það hafi haft áhrif á það. En fyrst og fremst eru þetta þó þær ákvarðanir sem voru teknar af þeim mönnum sem ákveða olíuverð í Sádí-Arabíu sem hafa haft áhrif. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi haft meira gildi sem táknræn samstaða Vesturlanda. Svo er það alltaf spurning um hvað menn eigi að ganga langt í að útiloka þá sem eru brotlegir. Hv. þm. Ögmundur Jónasson vakti mig með merkilegum hætti til umhugsunar hér áðan um einn anga þessa máls sem ég hafði aldrei hugsað út í. Mér fannst það í lagi þegar stjórnarnefndin á NATO-þinginu vísaði Rússlandi út. Ég skildi það vel þegar Evrópuráðið tók svipaða afstöðu. Ögmundur Jónasson benti á að með því að vísa Rússum úr Evrópuráðinu er verið að svipta fólk innan Rússlands þeim rétti að skjóta málum, þegar því þykir það sæta ofríki af hálfu Rússlandsstjórnar, til Evrópuráðsins. Þetta er merkileg nálgun.

Í öllu falli. Ég læt þess getið að það kom fram í utanríkismálanefnd í morgun þegar verið var að ræða strandgæslu Norðurskautsins að undir forustu Kanada var Rússlandi vísað úr því samstarfi. En þegar Bandaríkin tóku þar við voru þeir teknir inn aftur. Ég held eftir á að hyggja að það sé alltaf best að reyna að hafa ríki innanborðs og eiga við þau samtöl.

Svo að ég komi að hinu málinu á þremur sekúndum: Sýrlandsdeilan verður aldrei leyst með hervaldi. Hún verður bara leyst með samningum. En þar (Forseti hringir.) þurfum við atbeina Rússa, við þurfum atbeina Bandaríkjanna og Írans. Íslenskir þingmenn eiga alltaf að leggja sinn atbeina og sinn atgeir að því að ná samningum, friðsamlegum lausnum.