145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka ræðuna. Hv. þingmaðurinn kom inn á marga ólíka fleti. Ég hjó sérstaklega eftir tveimur hlutum. Annar er, og ég er alveg sammála hv. þingmanninum um það, að við þurfum nauðsynlega að taka inn og skapa svigrúm í utanríkismálanefnd fyrir þær ályktanir sem við erum beinir þátttakendur að. Auðvitað er það svo að margar ályktanir eru þess eðlis að þeim er ekki beint til okkar, en það er samt rauður þráður í mörgum ályktananna í gegnum alþjóðastarfið í heild. Svo eru sértæk mál sem lúta mjög að framtíð okkar og líka nútíðinni, eins og varðandi norðurslóðamálin, sem mér finnst furðulegt að ekki skuli vera farvegur fyrir í þinginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann þekki til hvernig þetta er hjá öðrum þjóðum. Ég hef lagt mikla áherslu á að reyna að finna út úr því og það vill svo skemmtilega til að á næsta fundi Alþjóðaþingmannasambandsins verður lögð sérstök áhersla á að finna leiðir og skoða hvernig önnur lönd haga málum sínum, sem við getum notað sem fyrirmynd. Það er mikil umræða um akkúrat þessi mál á alþjóðavettvangi.

Mig langaði að athuga hvort hv. þm. Össur Skarphéðinsson, með sína miklu reynslu í utanríkisstarfi, gæti varpað einhverri sýn á hvernig hann teldi að best væri að haga málum okkar í þessu. Síðan geri ég að sjálfsögðu ráð fyrir að hv. þingmaður verði með í hinum þverpólitíska hópi sem berst fyrir því að vegsemd utanríkismála eigi sér fastari sess og sterkari á þinginu.