145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég held að æskilegt væri að utanríkismálanefnd gæti ákveðið sjálf hvaða mál væru af þeim toga að það þyrfti að ræða þau hér. Ég hef til dæmis nefnt TiSA. Það er dæmigert mál þar sem eru heitar tilfinningar og sterkar skoðanir og ætti að ræða á þessum vettvangi, en það er varla rætt í utanríkismálanefnd, þó hefur það nú komið fyrir. Málefni norðurslóða alveg sérstaklega. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi Tíbet. Mörg önnur mál gæti ég nefnt, en fyrsta stoppistöðin ætti að vera utanríkismálanefnd. Hún ætti að hafa með höndum einhvers konar vald til þess að geta óskað eftir því að á dagskrá þingsins kæmu mál sem hún metur það mikilvæg að rétt væri að ræða þau. Það væri sjálfsagt að setja um það ákveðinn fastan tímaramma þannig að ljóst væri að menn væru ekki að nota þetta til þess að spilla tíma þingsins. En þetta er mjög þarft. Ég held að það hefði líka verið mikilvægt í ýmsum öðrum efnum að fá umræðu til þess að upplýsa þingmenn um málin.

Svo ég komi aftur að Rússlandi og Úkraínu og refsiaðgerðunum sem gripið var til þá er það auðvitað dæmi um mál sem hefði strax átt að ræða hér og fara yfir, fara yfir þann möguleika að við tækjum þátt í því, fara yfir þann möguleika að við tækjum þátt með tilteknum skilyrðum, sem hefði alveg verið hægt, eða, eins og hefur reyndar komið frá báðum vængjum stjórnmálanna sem breiða sig yfir Alþingi, ræða þá skoðun hvort við ættum að standa hjá og ekki taka þátt í því. Það er fullkomlega lögmæt skoðun þó að ég hafi hana ekki. En það hefði verið þarft að fá þau rök öll (Forseti hringir.) fram í upphafi og það hefði hjálpað hæstv. ráðherra til þess að taka yfirvegaða ákvörðun.