145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Evrópuráðsþingið 2015.

465. mál
[15:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé ansi gott dæmi sem hv. þingmaður tók hvað varðar viðskiptaþvinganirnar á Rússland því að við sitjum uppi með það núna að tekin hafi verið ákvörðun án þess að hún hafi í rauninni verið rædd og svo langt frá því að öllum flötum hafi verið velt upp í því máli, t.d. varðandi hagsmuni fiskútflytjenda svo eitt dæmi sé nefnt. Ég held að við hefðum getað komist hjá ansi miklum deilum í íslensku samfélagi hefðum við tekið þessa umræðu á undan.

Það er annað atriði sem mig langar að ræða við hv. þingmann, en það er tæknifrasi sem ég vil kalla svo sem ég held að mér hafi tekist að læra, en það er þegar framkvæmdarvaldið eða hæstv. ráðherrar skrifa undir samninga í útlöndum með því sem kallað er stjórnskipulegur fyrirvari um samþykkt Alþingis. Hæstv. ráðherra skrifar undir í útlöndum og svo er það rætt eftir á á Alþingi. Vissulega er hægt að hnekkja ákvörðun ráðherrans, en það er samt alltaf þannig að Alþingi stendur að hluta til frammi fyrir orðnum hlut. Það er alltaf erfiðara, það er alltaf á brattann að sækja þegar umræðunni er þannig háttað.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann teldi til bóta að þessi umræða væri tekin í þingsal á undan, svo færi hæstv. ráðherrann út, síðan væri formsins vegna hægt að afgreiða málið í þingsal og (Forseti hringir.) staðfesta undirskriftina.