145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Alþjóðaþingmannasambandið 2015.

476. mál
[16:14]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrirspurnina. Jú, það er alveg gríðarlega mikilvægt að koma þessu í farveg. Sem dæmi má nefna að það stendur í ályktuninni sem ég fékk að skrifa fyrir IPU í samstarfi við þingmann frá Suður-Kóreu, sem reyndar sýndi mér það mikið traust að á endanum vann ég hana eiginlega bara héðan:

„Skorar á þjóðþing að tryggja að ríkisstjórnir þeirra vinni að öllu leyti með sérstökum erindrekum Sameinuðu þjóðanna um réttinn til friðhelgi einkalífs, um eflingu og vernd skoðana- og tjáningarfrelsis, um stöðu verjenda mannréttinda og eflingu og verndun mannréttinda og grundvallarfrelsis í baráttu við hryðjuverk, þar á meðal í tengslum við áskoranir á stafrænni öld; hvetur þjóðþing til að kynna sér tilmæli erindrekanna og að kveða á um nauðsynlegan lagaramma fyrir framkvæmd þeirra, eftir því sem við á.“

Það segir líka í lið 22:

„Hvetur þjóðþing eindregið til þess að auðvelda upplýsingavernd í netheimum og tengdum innviðum, til að vernda friðhelgi og einstaklingsfrelsi borgara með formlegri og óformlegri samvinnu og samböndum milli þjóða til að skiptast á upplýsingum og miðla reynslu; skorar enn fremur á þjóðþing að koma á samstarfi varðandi tækni og verklag og að vinna saman til að draga úr hættu á netglæpum og netárásum, og í þessu samhengi að nútímavæða milliríkjasamninga til að taka á fjölþættum verkefnum á stafrænum tímum, þar á meðal viðbragðshraða.“

Ég tek þetta sem dæmi þar sem þarna er mjög fast að orðið kveðið. Ef ég hefði ekki lagt fram skýrslubeiðni til innanríkisráðherra og fengið þetta þýtt þá væri ekkert verið að gera með málið. Þetta er aðeins eitt mál. Það er fjöldinn allur af öðrum málum sem rykfellur. Það er náttúrlega á ábyrgð okkar þingmanna að svo verði ekki.