145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Alþjóðaþingmannasambandið 2015.

476. mál
[16:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ávallt þegar fram koma róttækar tæknibreytingar í samfélaginu eru þær til góðs og ills. Þegar við lærðum að nýta olíu þá gerði það okkur fært að keyra ýmist sjúkrabíla eða skriðdreka. Þegar kemur að upplýsingatækninni er það sama sagan, að um er að ræða tæknibreytingar sem valda gríðarlegum breytingum á samfélaginu sjálfu í grundvallaratriðum, sama hvort kemur að atvinnu, einkalífi eða jafnvel löggjöf, stjórnarfari o.s.frv. Þetta breytir menningunni okkar, þetta breytir framtíð okkar, þetta breytir tækifærunum og þetta breytir ógnunum. Þegar tæknibreytingar eru þess eðlis að þekking á henni er einungis á höndum sérfræðinga er hætt við að teknar séu rangar ákvarðanir af annars vel meinandi fólki.

Ég átti fyrr í dag í rökræðum við mann sem vildi til dæmis framfylgja höfundarétti á netinu með því að hlera beinlínis tengingar og greina efnið sem fer á milli notanda og einhvers handahófskennds aðila á netinu. Þar notaði sá aðili sem réttlætingu opinberanir Edwards Snowdens, notaði það sem réttlætingu fyrir því, sem einhvers konar fordæmi, sem er auðvitað fráleitt. En það undirstrikar hins vegar að ógnin er raunveruleg. Það er nefnilega gallinn við tækniframfarir á borð við upplýsingatæknina og olíuna hversu gagnlegir þessir hlutir eru, hversu mikið afl, hversu mikil tækifæri þeir leysa úr læðingi. Þá liggur á að tæknin sé nýtt rétt og við séum meðvituð um afleiðingar gjörða okkar. Eins og fyrr greinir er hætt við að við gerum mjög alvarleg mistök ef við skiljum ekki eðli tækninnar og hvaða áhrif aðgerðir okkar hafa.

Í þessu sambandi hefur átt sér stað alþjóðlega mikil umræða um áhrif tækniframfara á mannréttindi og borgararéttindi. Tilhneigingar eru meðal allra stórra þjóða, held ég, og allra hervelda, allra leyniþjónustna, allra lögregluembætta sem yfir höfuð hafa aðgang að tækninni, að nýta hana til eftirlits, sem þýðir í reynd til hlerana. Það er sömuleiðis rík tilhneiging yfirvalda af allri sort, hvort sem þau yfirvöld eru í formi stjórnvalda eða fyrirtækja eða hvað eina, að hafa stjórn á umræðu og sér í lagi upplýsingum, því að stjórn yfir upplýsingum er stjórn yfir mannlegu samfélagi og það er ekkert minna en það sem er í húfi á þessari annars áhugaverðu og ágætu 21. öld.

Því er afskaplega mikilvægt að Alþingi taki það alvarlega þegar Alþjóðaþingmannasambandið fjallar um málið með þeim hætti sem það hefur gert og má það fá þakkir fyrir og þeir ágætu hv. þingmenn sem hafa staðið að því. En ég óttast að það verði áfram þannig að þessi málaflokkur, sem er mannréttindi á 21. öldinni í samhengi við upplýsingatæknibyltinguna, einkennist áfram af einhvers konar skilningsleysi, hvort heldur sem það er skilningsleysi gagnvart tækninni sjálfri eða skilningsleysi gagnvart mikilvægi þess að halda í þau réttindi. Sem fyrr greinir eru upplýsingar og upplýsingatækni afskaplega hentug. Það er afskaplega hentugt og heppilegt fyrir mjög marga að safna saman ógrynni af persónuupplýsingum og nýta það í alls konar tilgangi. Það er afskaplega heppilegt að hafa stjórn yfir upplýsingum. Í því felst freistingin, freisting hjá vel meinandi fólki sem vill samfélagi sínu vel en skilur ekki afleiðingar þess sem það gerir þegar kemur að upplýsingatækninni.

Ég er þó mátulega bjartsýnn vegna þess að sem betur fer gerast hlutir eins og þeir sem koma fram í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu. Umræðan á sér stað. Hún er oft svolítið á eftir einhverjum röngum ákvörðunum. Eitt gott dæmi að mínu mati um ranga ákvörðun var að heimila sýslumanni að setja lögbann vegna höfundaréttarbrota, mig minnir að það hafi verið í þingmáli árið 2010 sem það gerðist á Íslandi. Það var mjög vond þróun, en ekki er útséð hvernig sú saga endar, enda eru þau mál enn þá til umfjöllunar hjá sýslumönnum og í dómskerfinu. Er þar kannski helst að segja frá þeirri baráttu höfundaréttarhafa eða rétthafa eins og STEF, stofnana sem verja þau réttindi gegn milliliðum á borð við netveitur.

Sífellt fæðast nýjar hugmyndir til þess að nýta tæknina til einhverra hugmynda sem virðast góðar og virðast kannski skynsamlegar í fyrstu, en þá er mikilvægt að staldra við og spyrja alltaf: Hvaða áhrif hafa þær á mannréttindi? Og ekki bara hvaða áhrif þær hafa samstundis á mannréttindi, heldur hvaða áhrif nálgunin hefur á mannréttindi. Gott dæmi um það er lokun vefsvæða. Lokun vefsvæðis er upptaka rits, það er það sama, miðillinn er bara öðruvísi. Ég held að ef við settum lög sem mundu færibandavæða upptöku rita þá mundi nú heyrast í einhverjum sem kærir sig um mannréttindi, það er hætt við því ef við áttum okkur ekki á að það er það sama á netinu að gera það. Það er það sama. Að sumu leyti verra, reyndar, vegna þess að það veldur því að ferlarnir til að hafa stjórn á upplýsingum verða skilvirkari, sem þeir eiga ekki að vera. Það á að vera erfitt að þagga niður í fólki. Það á að vera erfitt að hlera og njósna. Það á að vera átak til þess að halda í þau mannréttindi sem við annars tökum sem sjálfsögðum hlut á 21. öldinni. Því fagna ég þessari skýrslu og að umræðan eigi sér virkilega stað og vona að pólitíkin nái að halda í við tæknina.