145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Alþjóðaþingmannasambandið 2015.

476. mál
[16:27]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Mig langar til þess að lesa hér ályktunina Lýðræði í stafrænum heimi, ógnir við friðhelgi einkalífs og einstaklingsfrelsi, sem samþykkt var einróma á 133. þingi IPU í Genf 21. október 2015.

„133. þing Alþjóðaþingmannasambandsins minnir á leiðbeinandi meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna:

Minnir einnig á mannréttindi og grundvallarfrelsi sem felst í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og viðeigandi alþjóðamannréttindasáttmálanum, þar á meðal í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Minnir enn fremur á ályktun 118. þings IPU um hlutverk þjóðþinga í að skapa jafnvægi milli þjóðaröryggis, almenningsöryggis og einstaklingsfrelsis og að koma í veg fyrir ógnun við lýðræði (Höfðaborg, apríl 2008).

Bendir á ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 69/166, um rétt til friðhelgi einkalífs á stafrænni öld frá 18. desember 2014.

Bendir einnig á skýrslu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um réttinn til friðhelgi einkalífs á stafrænni öld.

Minnir á leiðbeinandi reglur Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og mannréttindi og með það í huga að bæði borgarar og fyrirtæki geti gegnt mikilvægu hlutverki í að auka eða draga úr mannréttindum, þar á meðal rétti til friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis á stafrænum tímum, með tilliti til þess að grundvallarréttindi gilda einnig í netheimum.

Viðurkennir órofatengsl lýðræðis og réttar til friðhelgi, tjáningarfrelsis og upplýsingafrelsis og opins og frjáls internets, og í ljósi alþjóðlegrar viðurkenningar á rétti til friðhelgi einkalífs, vernd þess í alþjóðalögum og væntingar borgara um allan heim þess efnis að réttur til friðhelgi einkalífs sé varðveittur bæði í lögum og framkvæmd.

Viðurkennir einnig að á vettvangi stafræns eftirlits er ekki nóg að samþykkja og framfylgja lögum og að réttarfarsreglur séu stundum veikar og eftirlit óskilvirkt.

Lýsir áhyggjum af því að altækt eftirlit (mass surveillance) með stafrænum samskiptum og önnur form stafrænnar tjáningar feli í sér brot á rétti til friðhelgi einkalífs, þar á meðal þegar það er framkvæmt yfir landamæri og ógni rétti til tjáningarfrelsis og upplýsinga, sem og öðrum grundvallarmannréttindum, þar á meðal réttinum til friðsamlegra samkoma og félagafrelsis og grefur þannig undan þátttöku í lýðræði.

Viðurkennir þörf fyrir uppbyggingu færni og valdeflingu þingmanna og sérhæfðra þingnefnda til að benda á glufur í lögum, setningu laga um vernd mannréttinda, þar á meðal um réttinn til friðhelgi einkalífs og til að koma í veg fyrir brot á slíkum réttindum.

Áréttar ábyrgð þjóðþinga til að koma á, í samræmi við alþjóðlegar meginreglur og skuldbindingar, heildrænum lagaramma um fullnægjandi þingeftirlit til að hafa skilvirka sýn yfir aðgerðir ríkisstofnana og/eða eftirlitsstofnana á þeirra vegum, og til að tryggja að lagaleg ábyrgð verði öxluð á öllum brotum mannréttinda og einstaklingsfrelsis.

Beinir sjónum að þörf fyrir að virkja og hafa samráð við alla viðkomandi hagsmunaaðila, þar á meðal frjáls félagasamtök, skólakerfið, tæknisamfélagið og einkageirann varðandi stefnumörkun á stafrænum tímum.

Viðurkennir mikilvægi og sérþekkingu þjóðbundinna mannréttindastofnana, frjálsra félagasamtaka og talsmanna mannréttinda og hlutverk þeirra í eftirliti, stefnumótun, samráði og vitundarvakningu og fagnar auknu samstarfi milli þessara aðila og þjóðþinga og þingmanna um allan heim.

Bendir á starf og framlag þessara aðila, svo sem alþjóðareglur um virðingu mannréttinda við eftirlit með samskiptum (nauðsynja- og meðalhófsreglurnar), sem njóta stuðnings rúmlega 400 frjálsra félagasamtaka og alþjóðasambands netverja (Global Network Initiative).

Staðfestir þörf fyrir trygg og óskert tjáskipti í þágu almennings og verndar grundvallarréttinda.

Metur niðurstöður sérstaks erindreka Sameinuðu þjóðanna um eflingu og vernd tjáningarfrelsis og skoðanafrelsis, um notkun dulkóðunar og nafnleyndar.

Viðurkennir framlag þjóðþinga og áhrif þeirra á ákvarðanir sem greiða fyrir nauðsynlegum einhug innan lands og á alþjóðavísu varðandi samstilltar og skilvirkar aðgerðir í þessum málum.

1. Skorar á þjóðþing að taka þátt í þróun og framkvæmd heildarstefnu sem gerir almenningi kleift til lengri tíma litið að njóta þeirra umtalsverðu kosta sem internetið getur veitt efnahagslegu, félagslegu, menningarlegu og umhverfisvænu lífi til að ná sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

2. Leggur áherslu á að þessi heildarstefna miði að því, bæði lagalega og siðferðilega, að skapa stafrænt vistkerfi sem er fært um að tryggja öllum borgurum sömu réttindi og tryggja að frelsis þeirra sé gætt með skilvirkum hætti, einkum er kemur að því að kenna almenningi stafræna færni og tryggja jafnræði milli aðila, sem kemur í veg fyrir misnotkun á ráðandi stöðu.

3. Leggur áherslu á að öll löggjöf á sviði eftirlits, friðhelgi einkalífs og persónulegra gagna verði að byggjast á meginreglu lögmætis, gagnsæis, meðalhófs, nauðsynjar og réttarríkis.

4. Hvetur þjóðþing til að endurskoða lagaramma og verklagsreglur að því marki að efla og auka aðild og þátttöku almennings á stafrænum tímum.“

Nú verð ég að hætta út af því að ég er svo veik. Ég hvet fólk til þess að klára að lesa þessa ágætu ályktun.