145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

Vestnorræna ráðið 2015.

466. mál
[16:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir skýrslu um störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins árið 2015. Eins og kemur fram í skýrslunni hefur þetta vissulega verið viðburðaríkt ár. Það var merkur áfangi þegar haldið var upp á 30 ára afmæli Vestnorræna ráðsins í Færeyjum. Það var gert með pompi og prakt, enda fullt tilefni til. Þar komu margir góðir gestir. Það er mjög ánægjulegt að þetta samstarf hefur gengið mjög vel og er alltaf að eflast.

Sameiginlegir hagsmunir þessara þriggja nágranna, Íslands, Færeyja og Grænlands, eru miklir og sérstaklega nú um stundir hvað varðar málefni norðurslóða. Það er lögð mikil áhersla á að hámarka áhrif landanna þriggja á gang mála á norðurslóðum, en þangað horfa nú helstu stórveldi heims og brýnt er að vernda hagsmuni þjóðanna á svæðinu til framtíðar. Þjóðirnar eiga í dag fjölbreytt samstarf í sjávarútvegi, mennta-, menningar- og heilbrigðismálum. Á ársfundinum á síðasta ári var ályktað að auka enn frekar þetta samstarf og kortleggja hvernig löndin gætu aukið samstarfið á sviði sjávarútvegs, fríverslunar, samgangna og við uppbyggingu innviða samfélaganna.

Landfræðileg lega vestnorræna svæðisins í miðju Norður-Atlantshafi, á milli meginlands Evrópu og Norður-Ameríku, og með aukinni tengingu við Asíu, gerir það að verkum að flutningar þar eiga eftir að aukast mikið og öll umsvif á svæðinu. Mikið hefur verið talað um tækifæri sem skapast þegar siglingar um norðurslóðir aukast en minna er talað um þær ógnir sem þeim fylgja þar sem lifibrauð þjóðanna er undir ef til dæmis mengunarslys yrði.

Málefni norðurslóða eru til umræðu hjá Norðurskautsráðinu og fleiri stöðum. Vissulega er hætta á að stórþjóðirnar, sem líka eiga mikla hagsmuni undir, ráði ferðinni. Þess vegna bindur maður miklar vonir við það að umsögn Vestnorræna ráðsins um að fá áheyrnaraðila að Norðurskautsráðinu verði samþykkt. Það er mjög mikilvægt að rödd vestnorrænu ríkjanna heyrist og hafi vægi. Það eru gífurlegir hagsmunir undir til langs tíma að mótuð sé ábyrg og sjálfbær stefna á norðurslóðum og aukin skipaumferð um norðurslóðir gerir Ísland að kjörstað fyrir alþjóðlega leitar- og björgunarmiðstöð. Hinar vestnorrænu þjóðir hafa ályktað í þeim efnum og við Íslendingar gegnum þar lykilstöðu.

Vestnorræna ráðið samþykkti ályktun árið 2013 um að kanna hverjar væru orsakir fyrir fækkun kvenna á Vestur-Norðurlöndum. Ályktunin hefur ekki verið uppfyllt að fullu en haldin var ráðstefna í júní 2015 í Nuuk þar sem fulltrúar landanna ræddu þennan vanda. Í Færeyjum hefur verið kortlagt hvað veldur fólksflutningum frá jaðarsvæðum. Ég tel þetta vera brýnt verkefni sem þurfi að greina vel og bregðast við svo ekki fari illa. Þetta vandamál þekkjum við mjög vel á landsbyggðinni á Íslandi og eigum það sammerkt með þessum löndum, Færeyjum og Grænlandi.

Mikil aukning er í ferðaþjónustu þessara þriggja landa þótt ekkert jafnist á við þá sprengingu sem hefur orðið í fjölda ferðamanna á Íslandi. Það er mikilvægt að auka samstarf í ferðaþjónustu á milli landanna og vinna að sameiginlegri markaðssetningu fyrir norðurslóðir með sjálfbærni og hreinleika náttúrunnar að leiðarljósi. Við skulum minnast þess að það er fyrst og fremst vegna náttúrunnar sem ferðamenn sækja til landanna.

Spennandi verkefni eru fram undan á sviði námskeiða fyrir vestnorræna rithöfunda. Menntamálaráðuneytið á Íslandi er að skoða hvort hægt verði að koma slíkum námskeiðum fyrir í samstarfssamningi um menntun, menningu og rannsóknir sem er í vinnslu milli þessara landa og var til umræðu á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík í fyrra.

Það er mikil ásókn í auðlindir til lands og sjávar í vestnorrænu ríkjunum af stórþjóðum og auðhringjum. Það er mikilvægt að samhæfa krafta þessara grannþjóða til þess að auðlindanýting þeirra sé sjálfbær og að afraksturinn nýtist til uppbyggingar heima fyrir með eflingu samfélaganna og að þjóðirnar haldi yfirráðarétti sínum yfir eigin auðlindum.

Hv. formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins minntist á samstarfssamning sem var gerður við Arctic Circle ráðstefnuna, hringborð norðursins. Vestnorræna ráðið tók þátt í þeirri ráðstefnu í fyrra og núna erum við orðnir aðilar að framhaldi slíkra ráðstefna með þessum samstarfssamningi. Ég tel að það geti verið okkur til góða og okkur til framdráttar að komast að því hringborði. Ekki veitir af að láta í okkur heyra þar sem við þurfum að vera alls staðar þar sem ákvarðanataka er um málefni norðurslóða, sem er mjög brýnt nú um stundir.

Almennt séð held ég að samstarf vestnorrænu ríkjanna sé mjög mikilvægt og eins og komið var inn á eru undir þingsályktunartillögur sem liggja fyrir og verður mælt fyrir í framhaldinu sem Íslandsdeildin ber hér fram og eru þær allar um mikilvæg málefni til þess að styrkja áfram samstarf þjóðanna. Ein tillagan fjallar um langtímastefnu varðandi samgöngur og innviði á Vestur-Norðurlöndum. Önnur tillagan fjallar um að styrkja samstarf þjóðanna þriggja varðandi sjávarútvegsmálin. Þriðja tillagan fjallar um greiningu á sameiginlegum ávinningi vestnorrænu ríkjanna varðandi fríverslunarsamninga og vestnorrænt viðskiptaráð. Allt eru þetta málefni sem hafa verið undir og til umræðu og skiptir miklu máli að þróa áfram og að það fáist líka einhver niðurstaða sem við getum byggt á og gagnist þessum þjóðum í framhaldinu. Ég get alveg tekið undir það sem var í umræðunni fyrr í dag, að hvað varðar samstarf þjóða og afrakstur af erlendu samstarfi og vinnu alþjóðanefnda sé mjög æskilegt að árangur af þeirri vinnu sé sýnilegur og menn líti ekki þannig á að þetta séu skemmtiklúbbar sem fara reglulega og koma svo heim með einhvern afrakstur sem ekkert nýtist einum eða neinum.

Ég vil í lokin gera orð forsætisráðherra Grænlands að mínum, orð sem hann lét falla í afmælisræðu sinni á ársfundinum í Færeyjum í ágúst á síðasta ári. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Við sjáum ekki alltaf stjörnurnar en við vitum að þær eru þarna. Eins er með vináttu þessara þriggja landa, hún er alltaf til staðar þótt höf skilji að.“