145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

höfundalög.

334. mál
[17:39]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Nú erum við komin í það frumvarp um breytingu á höfundalögum er varðar munaðarlaus verk. Tilgangur frumvarpsins er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um tiltekna leyfilega notkun á munaðarlausum verkum.

Þegar við tölum um munaðarlaus verk eigum við við verk sem njóta höfundaréttar en höfundur eða aðrir rétthafar eru ekki þekktir, eða þeir eru þekktir en ekki hægt að finna út úr því hvar þeir eru né leita heimildar hjá þeim til að stafvæða verkin eða gera þau aðgengileg.

Með innleiðingu þessarar tilskipunar er ákveðnum menningarstofnunum heimilað að nota verk án heimildar rétthafa ef komist er að þeirri niðurstöðu að þau séu munaðarlaus. Forsendan fyrir notkun munaðarlausra verka er sú að búið sé að gera ítarlega leit til þess að reyna að finna rétthafa áður en þessi not hefjast.

Það er ekki hægt að leggja fram neinar nákvæmar tölur um umfang munaðarlausra verka en í sumum flokkum er ljóst að um umtalsverðan fjölda er að ræða.

Eiginlega allir þeir sem veittu umsögn um þetta mál voru sammála um að frumvarpið fæli í sér miklar réttarbætur og eyddi óvissu um notkun verka sem eru munaðarlaus. Ef frumvarpið nær fram að ganga þýðir það að aðgangur almennings að höfundavörðum verkum í vörslu menningarstofnana verður greiðari.

Í meðferð nefndarinnar bar á athugasemdum um hugtakanotkun en í frumvarpinu er í rauninni ekkert verið að fjalla um það og við vísum þeim athugasemdum öllum til þeirrar heildarendurskoðunar á lögunum sem nú stendur yfir.

Nefndin leggur til að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt og undir nefndarálitið skrifa sú sem hér stendur og hv. þingmenn Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.