145. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2016.

tekjuskattur.

86. mál
[17:51]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mér mikill heiður að fá að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt sem kveður á um skattafslátt vegna útleigu á einni íbúð. Þetta frumvarp er flutt af okkur þingmönnum Samfylkingar og er hluti af þeim tillögupakka sem við höfum lagt fram í þingsályktunartillögu um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum. Við kusum að leggja þetta frumvarp sérstaklega fram þannig að það fengi þinglega meðferð án þess að vera hluti af hinni heildstæðu þingsályktunartillögu vegna þess að við teljum mikilvægt að tekin sé efnisleg afstaða til þess á Alþingi hvort veita skuli þennan skattafslátt eða ekki.

Frumvarpið felur í sér að í ljósi þeirrar stöðu sem er á leigumarkaðnum um þessar mundir, þar sem bæði er erfitt að fá íbúð til leigu á boðlegum kjörum og litlar íbúðir á besta stað eru bæði illfáanlegar og dýrar, sé eðlilegt að grípa þegar til aðgerða til að auka framboð á leiguíbúðum og þannig verði leiga á einni íbúð í langtímaleigu skattfrjáls og þeim ívilnað sem leigja út íbúðir sínar til raunverulegrar búsetu og fleiri þannig hvattir til þess. Eins og alþjóð veit hefur íbúðum sem eru til reiðu til raunverulegrar búsetu fækkað, í það minnsta á höfuðborgarsvæðinu, vegna aukinnar ásóknar af hálfu ferðamanna.

Það skiptir máli að hvetja fólk sem getur leigt út frá sér til að leigja út frá sér til almennrar búsetu frekar en til ferðamanna. Vegna þess að fólk leigir yfirleitt til ferðamanna, af því að það hefur meira upp úr því peningalega, þá getur skattafsláttur að þessu leyti brúað það bil að einhverju leyti, ekki til fulls en alla vega hjálpað til við að brúa það bil.

Það er líka mikilvægt að fólk sem kannski veigrar sér við í dag að leigja út frá sér geri það frekar. Það er auðvitað þannig að lífeyrisþegar til dæmis horfa á það að fjármagnstekjur og leigutekjur teljast til fjármagnstekna samkvæmt skattalögum og þær skerða í dag til fulls lífeyri almannatrygginga eftir að mjög lágu frítekjumarki upp á tæpar 100 þús. kr. er náð. Það er mjög mikilvægt að það fólk fái hvata til þess að leigja út frá sér, eldra fólk til að mynda sem kann að búa í stóru húsi og getur hlutað það niður og leigt hluta þess út. Það á ekki að hegna fólki fyrir að leigja út frá sér þegar aðstæður eru eins og núna.

Við gerum líka ráð fyrir því að þetta skilyrði um skattaívilnun verði bundið því að húsaleiga verði ekki hærri en meðalleiguverð á því svæði sem íbúðin er staðsett. Það er til þess að umbuna þeim sem halda leiguverði í hófi og að skattafslátturinn sé þar af leiðandi ekki til reiðu fyrir þá sem leigja á verði sem er til þess fallið að toga leiguverðið upp. Við eigum ekki að beita ríkisfé til þess að styðja fólk við að hækka leigu við aðstæður eins og þær sem nú eru.

Ég ætla ekki að orðlengja umræðu um þetta mál um of. Tillagan er skynsamleg. Ég vonast til þess að hún fái efnislega meðferð í efnahags- og viðskiptanefnd sem hún mun væntanlega fara til, enda um breytingu á tekjuskattslögum að ræða.

Ég vil í því sambandi minna á að í fyrrahaust voru gerðar breytingar af hálfu ríkisstjórnarinnar á því með hvaða hætti útleiga af íbúðum er skattlögð í fjármagnstekjuskatti, en við teljum eðlilegra að umbuna sérstaklega einstaklingum sem leigja út frá sér með því að undanþiggja alfarið leigu einnar íbúðar með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi er ívilnunin hér bundin einstaklingum sem ekki eru með útleigu í atvinnuskyni, þannig að við veitum ekki almennan afslátt af fjármagnstekjuskatti af leigu fyrir þá sem leigja margar íbúðir út.

Í annan stað er skilyrðið um að leigusamningur sé til að minnsta kosti 12 mánaða til þess fallið að fjölga íbúðum sem eru í raunverulegri langtímaútleigu, en mér finnst engin sérstök ástæða til þess að veita skattfríðindi til þeirra sem leigja til ferðamanna í dag, svo dæmi sé tekið.

Í þriðja lagi er svo ákvæðið um viðmið við meðalleiguverð á viðkomandi svæði sem skiptir máli til þess að tryggja að aðgerðin verði ekki til þess að spenna almennt upp leiguverð í landinu.

Virðulegi forseti. Það er kannski óþarfi að hafa miklu fleiri orð um þetta mál. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég vonast til þess að efnahags- og viðskiptanefnd fjalli vandlega um málið og skili áliti um það. Mér þætti mjög æskilegt að þetta frumvarp fengi efnisafgreiðslu hér í vor. Ég hef tekið eftir því í samtölum við þingmenn úr öllum flokkum að það er mikill áhugi á málinu. Ég hef heyrt þingmenn úr stjórnarflokkunum hrósa því. Ég hef heyrt bæði hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hrósa þessari hugmynd. Það væri mjög mikilvægt, held ég, að þetta mál og þessi tillaga fengi efnislega afgreiðslu af hálfu þingsins.