145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni dóm Hæstaréttar þar sem Hæstiréttur hefur fallist á endurgreiðslukröfu frá innflytjendum vegna fjárhæða sem þeir greiddu fyrir tollkvóta. Tollkvótar hafa verið boðnir út, en hugmyndin með þeim er samt sem áður að flytja til landsins innfluttar landbúnaðarafurðir með engum tollum. Þegar tollkvótarnir eru boðnir út þarf auðvitað að borga fyrir þá og því er svo velt út í verðlagið og neytendur gjalda fyrir. Samkvæmt dómnum á ríkið að endurgreiða fyrirtækjunum um hálfan milljarð, eflaust eru fleiri fyrirtæki þarna úti sem munu láta reyna á rétt sinn hvað þetta varðar.

Spurningin er með þennan hálfa milljarð og hvernig neytendur munu njóta þess því að það eru væntanlega þeir sem hafa greitt aukalega fyrir ostana og kjötið og hvað það nú er sem hefur verið flutt hingað til lands.

Ég vil skora á þessa seljendur, einn þeirra er Hagar sem er stór aðili á markaði, að skila þessu til neytenda. Mér detta líka í hug Neytendasamtökin þótt það sé kannski ekki endilega eðlilegt að hagsmunasamtök styrki félagasamtök. Mér finnst stjórnvöld hafa veitt skammarlega lágar upphæðir til Neytendasamtakanna í gegnum tíðina sem sinna gríðarlega mikilvægu hlutverki og senda til dæmis mjög góðar umsagnir við ýmis mál. Þau fá 8 millj. kr. frá ríkinu á ári. Skammarlegt.

Ég mundi vilja sá eflingu á t.d. Neytendasamtökunum og að þessir innflytjendur mundu með einhverjum raunhæfum hætti skila peningunum aftur til neytenda. Ég skora hér með á þá að gera það.


Efnisorð er vísa í ræðuna