145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að eiga orðastað við hv. þm. Pírata Birgittu Jónsdóttur en hún er því miður veik svo ég beini orðum mínum til hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar.

Ég vil byrja á því að óska Pírötum til hamingju með það mikla fylgi sem þeir fá samkvæmt skoðanakönnunum. Ég neita því ekki að ég vildi heldur sjá Sjálfstæðisflokkinn með 40% í könnunum, en við skulum bíða og sjá hvað kemur upp úr kjörkössunum á næsta ári.

Tilefni þessara orðaskipta minna eru ummæli Birgittu Jónsdóttur sem hún birti á Facebook-síðu sinni nýlega þar sem hún segist ekki vilja frjálshyggjumenn í Pírata. Ég veit um frjálshyggjumenn sem geta vel hugsað sér að styðja Pírata í næstu kosningum, því velti ég fyrir mér hvaða skilaboð þetta eru til þeirra. Er sem sagt verið að afþakka stuðning þeirra? Mundu þeir líka vera útilokaðir úr flokksstarfinu? Hefði nóbelsverðlaunahafinn Milton Friedman, ef hann hefði verið Íslendingur, ekki verið velkominn í Pírataflokkinn?

Mér finnst þetta mjög sérkennileg pólitík því ég taldi Pírata vera breiðfylkingu fólks sem vildi breytingar, virkara lýðræði og gagnsæi og svo framvegis. En samkvæmt þessu eru bara sumir velkomnir að leggja gott til málanna en ekki allir.

Þá langar mig til að heyra viðhorf kafteins Pírata til Evrópustefnu flokksins, því það kemur fram í nýlegri könnun Gallup að meiri hluti kjósenda Pírata, 67%, mundi sennilega eða örugglega greiða atkvæði með aðild Íslands að Evrópusambandinu ef gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið nú. Þess vegna langar mig að vita aðeins meira um Evrópustefnu Pírata.