145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta eru miklar ræður sem hér eru haldnar. Ég ætla ekki að blanda mér í umræðu um heimildarmyndagerð en mér þykir áhugavert að hlusta á hv. þingmenn. Ég man ekki eftir þessum ræðum frá þeim á síðasta kjörtímabili, en það má nefna fyrirspurnir um allra handa verkefni og svör við þeim sem væntanlega mætti halda jafn heitar ræður um, um kunningsskap og vinskap og sama kjördæmi og annað slíkt, ef vilji væri fyrir hendi. Þessir hv. þingmenn voru á þingi á síðasta kjörtímabili en héldu engar slíkar ræður og voru bara sáttir við (Gripið fram í.) hvernig gengið var fram. En allt í góðu, ef menn vilja bjóða út verkefni eins og þessi skal ég svo sannarlega styðja það. Ég sá bara ekki að þetta væri gert með þeim hætti á síðasta kjörtímabili þegar hv. þingmenn studdu þingmeirihlutann. En allt í góðu með það. (Gripið fram í.)

Hér var hins vegar rætt um hluti að forgöngu meiri hluta hv. fjárlaganefndar sem snúa að tollamálum. Þar sitjum við uppi með það, Hæstiréttur hefur dæmt svo, að nú á að greiða ákveðnum fyrirtækjum til baka á þeim forsendum að skattar hafi verið ofteknir upp á 1,2 milljarða, sýnist mér að heildargreiðslan geti verið. Það er rétt að menn deila ekki við dómarann og þetta hlýtur að vera endemis klúður, en í ofanálag virðast allar forsendur benda til að það sem var lagt af stað með með samningunum við Alþjóðaviðskiptastofnunina á sínum tíma, um að auka samkeppni á landbúnaðarmarkaði, hafi verið framkvæmt með þeim hætti að það nýtist ekki neytendum. Núna á að greiða þessar sektargreiðslur til þessara stóru fyrirtækja en enginn getur sýnt fram á skaða þeirra, alla vega hefur það ekki verið gert. Eftir standa neytendur sem hafa ekki fengið að njóta samkeppni í verði að minnsta kosti, kannski í gæðum, ég efast þó um það. (Forseti hringir.) Þeir sitja alltaf eftir með sárt ennið og það þykir mér miður. Ég tel að við þurfum að endurskoða þessa framkvæmd og ýmislegt annað sem snýr að viðskiptamálum okkar Íslendinga.


Efnisorð er vísa í ræðuna