145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[15:50]
Horfa

Flm. (Karl Garðarsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela félags- og húsnæðismálaráðherra að leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um embætti umboðsmanns aldraðra.

Tillaga þessi gerir ráð fyrir að komið verði á fót sérstöku embætti umboðsmanns. Hlutverk hans verði að gæta réttinda og hagsmuna þess sístækkandi hóps sem aldraðir eru. Það geri hann meðal annars með því að leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé gegn þeim, gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.

Þjónusta við aldraða dreifist á hendur ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Löggjöf sem varðar málaflokkinn er flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega fær um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfur. Að mati flutningsmanna er því rík þörf á málsvara sem gæti réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeini þeim um rétt þeirra. Sú þörf mun aðeins aukast eftir því sem tímar líða. Gert er ráð fyrir að þeim sem eru 67 ára og eldri fjölgi um rúmlega 26 þús. á næstu 15 árum, eða um 71%. Talið er að 80 ára og eldri fjölgi um tæplega 6.600 á sama tíma, eða um 55%. Þessi gríðarlega fjölgun í elstu aldurshópunum kallar á nýja nálgun í öllum málaflokkum sem tengjast öldruðum, ekki síst hvað varðar alla þjónustu, húsnæði o.s.frv. Þetta kallar líka á stóraukið upplýsingaflæði til þessa hóps.

Tillögur í þessa veru hafa nokkrum sinnum áður verið lagðar fram á þingi en ekki hlotið afgreiðslu. Á 120., 121. og 122. löggjafarþingi voru lagðar fram samhljóða tillögur til þingsályktunar um umboðsmann aldraðra. Í þeim var lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að kanna forsendur fyrir stofnun slíks embættis sem sinnti gæslu hagsmuna og réttinda þeirra.

Ef við skoðum frumvarp sem lagt var fram á 122. löggjafarþingi var lagt til að komið yrði á fót embætti umboðsmanns aldraðra sem hefði það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi þeirra. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að talsverð umræða hefði verið um að aldraða skorti talsmann sem nyti virðingar og gætti hagsmuna þeirra gagnvart stjórnvöldum, tryggði að vilji aldraðra kæmi fram áður en teknar væru ákvarðanir sem vörðuðu þá, fylgdist með því að þjóðréttarsamningar, lög og stjórnsýslureglur væru í heiðri hafðar og brygðist við ef talið væri að með athöfnum eða athafnaleysi væri brotið gegn réttindum, þörfum eða hagsmunum aldraðra.

Á 126. löggjafarþingi var enn lögð fram tillaga til þingsályktunar um umboðsmann aldraðra. Þar var lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að stofna slíkt embætti sem sinnti gæslu hagsmuna og réttinda þessa hóps. Þá var á 136. löggjafarþingi lögð fram tillaga til þingsályktunar um málsvara fyrir þennan hóp. Í henni var lagt til að félags- og tryggingamálaráðherra yrði falið að beita sér fyrir því að komið yrði á fót þjónustu sem sinnti gæslu hagsmuna og réttinda aldraðra. Metið yrði hvort sett yrði á laggirnar sérstakt embætti umboðsmanns þessa hóps eða hvort sveitarfélög önnuðust verkefnið. Samráð yrði haft við hagsmunasamtök aldraðra við vinnuna. Loks var þingsályktunartillaga sú sem hér er lögð fram einnig lögð fram á 144. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu. Að mati flutningsmanna er ærin ástæða til að láta loks verða af því að koma á fót þessu embætti og í raun með ólíkindum að slíkt embætti hafi ekki orðið að veruleika fyrr.

Ég vil sérstaklega benda á að umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, kom á fund stjórnskipunarnefndar Alþingis ekki fyrir löngu til að ræða störf sín og taldi hann sérstaka ástæðu til að minnast á þátt aldraðra. Þannig fær umboðsmaður Alþingis inn á borð til sín sífellt fleiri mál þar sem aldraðir kanna rétt sinn gagnvart stjórnvöldum. Þeir þekkja ekki rétt sinn og vita ekki hvert á að leita eftir svörum. Í slíkum tilvikum er oft það eina sem fólki dettur í hug að senda bréf til umboðsmanns Alþingis. Staðreyndin er nefnilega sú að upplýsingar um réttindi og skyldur aldraðra liggja ekki fyrir á einum stað. Eldri borgarar þurfa að ganga á milli stofnana með pappíra til að sanna rétt sinn, hringja í símaborð þeirra til að fá óljós svör og oft engin. Kerfið er allt annað en einfalt og stundum er eins og tölvuöldin hafi ekki enn gengið í garð í íslensku stjórnkerfi. Eiga eldri borgarar þessa lands ekki betra skilið? Það eiga ekki allir ættingja sem geta gengið í málið og fundið úrlausn.

Niðurstaðan er sú að eldri borgarar þessa lands verða oft af greiðslum úr kerfinu sem þeir eiga þó rétt á bara vegna þess að þeim láðist að sækja um þennan eða hinn styrkinn eða greiðsluna úr kerfinu. Þeir verða líka af þjónustu sem þeir eiga rétt á og mundi oft á tíðum einfalda líf þeirra og gera það bærilegra. Er ekki lágmark að við sjáum til þess að borgarar þessa lands geti fengið úrlausn mála sinna á einfaldan og skilvirkan hátt? Er ekki lágmark að eldri borgarar fái það sem er svo sannarlega þeirra?

Formaður kjaranefndar Landssambands eldri borgara og formaður Félags eldri borgara, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, ritaði ágæta grein í Morgunblaðið um þessi mál fyrir um það bil ári. Þar segir hún orðrétt, með leyfi forseta:

„Það hefur æ oftar komið fram á fundum hjá aðildarfélögum Landssambands eldri borgara hversu mikilvægt er að við fáum „umboðsmann aldraðra“. Í umræðunni hefur verið bent á að æðimörg og margvísleg mál gætu borist til umboðsmanns aldraðra. Fyrirspurnir, ábendingar og hreinlega kærur þar sem menn telja rétt sinn brotinn. Það er líka rétt að það komi fram, að barist hefur verið fyrir því að fá umboðsmann aldraðra árum saman á meðan aðrir hagsmunahópar hafa fengið talsmann eða umboðsmann.“

Fyrrum formaður Landssambands eldri borgara segir aðeins síðar í grein sinni orðrétt:

„Þekking fólks á réttindum sínum er misjöfn og þurfa margir að láta kanna stöðu sína, aðgengi að upplýsingum liggur víða og veitist mörgum flókið að ná heildarmynd af þeim. Hvergi er hægt að ganga að upplýsingaflæði fyrir eldra fólk um þau ár sem þá eru fram undan. Eldri borgarar sem eru í leit að hentugra húsnæði eru dæmi um hóp sem fær misvísandi upplýsingar um hvað sé þjónustuíbúð eða öryggisíbúð og þurfa opinberir aðilar, þar með talinn umboðsmaður aldraðra ef við hefðum hann, að koma að því að fá fasta og örugga skilgreiningu á þessum íbúðamálum. Ekki má kaupa köttinn í sekknum.

Alþingi þarf að taka þetta mál til skoðunar og vinna að löggjöf um „umboðsmann aldraðra“ með það að leiðarljósi, að slíkt embætti geti stuðlað að bættu upplýsingaflæði til eldri borgara og að réttarstaða þessa hóps sé virt í hvívetna. Taka á móti fyrirspurnum, kanna mál einstaklinga, og stuðla að því að fólk á öllum aldursskala efri áranna njóti persónulegra réttinda, virðingar og samfélagsþátttöku.“

Þetta eru orð formanns kjaranefndar Landssambands eldri borgara. Og svona má halda áfram. Í BSc-ritgerð sem Sólveig Pálmadóttir skrifaði um réttarstöðu aldraðra var meðal annars skoðað hvort brotið væri á réttindum aldraðra sem búa á öldrunarheimilum og hvort mannréttindabrot ættu sér stað þegar kæmi að öldruðum. Rétt er að taka það fram að þessi ritgerð var skrifuð fyrir nokkru síðan þannig að ekki er víst að allar fullyrðingar séu réttar í dag. En niðurstaða hennar var í stuttu máli sú að staðan væri þannig að nauðsynlegt væri að skipa umboðsmann aldraðra sem hefði það hlutverk að gæta hagsmuna þeirra og standa vörð um réttindi þeirra og bæta hag í samfélaginu. Sólveig segir í ritgerð sinni að umboðsmaður mundi sjá til þess að stefna stjórnvalda í málefnum aldraðra væri í samræmi við vilja þeirra og væntingar. Hann gæti sett fram úrbætur í málum sem snerta hag þeirra á öllum sviðum. Einnig gæti hann haft frumkvæði um umræður í samfélaginu um málefni þeirra og stuðlað að úrbótum á þeim réttarreglum og stjórnsýslufyrirmælum sem snerta mál skjólstæðinga hans.

Margrét Margeirsdóttir, fyrrverandi formaður Félags eldri borgara, sagði á sínum tíma að eldri borgarar stæðu mjög illa að vígi þegar þeir þyrftu að sækja eða verja réttindi sín. Enginn aðili í stjórnkerfinu væri til staðar sem þeir gætu leitað til og hefði það lögbundna hlutverk að sinna málum þeirra þegar þeir teldu brotið á sér. Eldri borgarar stæðu berskjaldaðir gagnvart stofnunum og yfirvöldum sem beittu valdi sínu á óréttlátan hátt, líkt því miður fjölmörg dæmi væru um eins og hún sagði. Það er rétt að taka fram að þessi ummæli Margrétar féllu fyrir um það bil átta árum. En hvað hefur breyst? Staðreyndin er sú að stór hópur eldri borgara er í stöðugri baráttu við kerfið, eins og ég kom inn á áðan, vegna þess að þeim finnst brotið á sér og þeir fá ekki lausn eða leiðréttingu mála sinna. Mjög oft er um að ræða lífeyrismál, húsnæðismál, skattamál, þjónustumál o.s.frv.

Við skuldum eldri borgurum þessa lands að búa vel að þeim og skapa þeim eins öruggt umhverfi og framast er kostur. Þetta fólk hefur lagt mikið af mörkum til samfélagsins á langri ævi og það er lágmark að við sjáum til þess að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af jafn sjálfsögðum hlut og réttindum sínum á síðustu æviárunum. Réttindi eldri borgara eru víða varin, ekki bara í lögum, reglugerðum og stjórnsýslufyrirmælum hér innan lands heldur líka í alþjóðlegum skuldbindingum okkar. Mannréttindasamningar og milliríkjasamningar leggja skyldur á herðar okkar þegar kemur að mannréttindum og þeir eru bindandi fyrir okkur. Þannig segir Sólveig Pálmadóttir í ritgerð sinni að vanvirðandi meðferð á öldruðum brjóti gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum, mikilvægt sé að hlúa vel að öldruðum sem skilað hafi sínu ævistarfi og ætti það velferðarþjóðfélag sem Ísland er að setja það í forgang að gera öldruðum kleift að lifa sín síðustu ár með reisn: „Þeir eiga að fá að halda sjálfstæði sínu þar til yfir lýkur, mannlegri reisn og við góða aðhlynningu í tryggu umhverfi.“

Þetta er kjarni málsins. Eldri borgarar eiga sinn rétt. Þetta er ekki alltaf vinsælasti þjóðfélagshópurinn hjá stjórnmálamönnum en það breytir engu um réttindi þessa fólks.

Ég ætla að vona að þingið beri gæfu til að samþykkja þetta góða mál að þessu sinni og ýta því ekki til hliðar eins og hefur verið gert svo oft áður. Það er komið nóg. Þeim peningum sem varið er í þennan málaflokk er vel varið. Þeir munu skila sér margfalt til baka. Hugsum um hag sístækkandi hóps eldri borgara. Hugsum um hag okkar allra.

Meðflutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu eru hv. þingmenn Elsa Lára Arnardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Þórunn Egilsdóttir og Jóhanna María Sigmundsdóttir. Að lokinni umræðu mælist ég til að málinu verði vísað til velferðarnefndar.