145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

embætti umboðsmanns aldraðra.

14. mál
[16:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn í þetta mál vegna þess að ég er ekki sammála hv. flutningsmanni um hvernig honum finnist að taka beri á þessu, þ.e. að einhvern veginn sé hægt að aðskilja samtalið og samræðuna út frá þessari tilteknu tillögu. Ef við stofnum embætti umboðsmanns aldraðra þá eigum við auðvitað að ræða hvað í því felst.

Mér fannst hv. þingmaður svara því eins og þetta ætti að vera frekar bitlaus aðili í sjálfu sér; felldi enga dóma og kveddi ekki upp úrskurð. Hann getur nefnilega alveg kvatt upp tiltekinn úrskurð, það fer eftir því hvaða vald hann hefur.

Við höfum hér umboðsmann Alþingis sem leggur mat á tiltekin málefni og Alþingi virðir það; virðir niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Þess vegna spurði ég þessarar spurningar varðandi kjaramálin sem við ræddum hér fyrir áramótin, hvort ekki hefði verið farið svolítið öðruvísi að; ég tel að eldri borgarar hefðu klárlega leitað réttar síns í gegnum umboðsmann sinn. Meiri hlutinn hefði kannski hinkrað með að að láta málin ganga fram í fjárlögum eins og þau gerðu.

Við eigum að hugsa þetta í stóra samhenginu. Við erum alltaf að plástra þegar við fjöllum um hin ýmsu málefni. Mér finnst því að við eigum að ræða það opinskátt, þegar við erum að stofna embætti, hvað við viljum að það geri.

Hv. flutningsmaður fór svo sem ágætlega yfir ákveðna hluti og vitnaði til greina sem skrifaðar hafa verið frá 2007. Málið hefur jú mjög lengi verið að velkjast í kerfinu; þetta er, eins og þingmaðurinn rakti, ekki í fyrsta, annað eða þriðja sinn sem þetta er lagt til, það er margoft búið að leggja þetta til. En einhverra hluta vegna nær þetta ekki fram að ganga.

Þá spyr maður sig, þó að við hér í minni hlutanum séum tilbúin til að styðja þetta, hvaða tregða það er í kerfinu sem veldur því að við náum þessu ekki í gegn. Það er kannski að hluta til þetta, ímynda ég mér: Hverjir eiga að hafa umboðsmann? Það gæti verið atriði númer eitt, eins og við fórum aðeins inn á í andsvörum áðan, að það þurfi að vera búið að marka það aðeins að ef við samþykkjum að setja á fót embætti umboðsmanns aldraðra þá muni öryrkjar, sem eru kannski að berjast við kerfið um þá flóru alla, líka telja sig eiga rétt á slíkum umboðsmanni.

Við þurfum að vera heiðarleg við sjálf okkur og setja niður hvað það er sem hefur orðið til þess að málið hefur ekki náð fram að ganga. Ég tek undir allt sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, auðvitað á það fólk sem byggði landið sem við búum í núna ekki að þurfa að lepja dauðann úr skel og átti aldrei að þurfa að gera.

Það kemur fram í greinum þessara tveggja kvenna — önnur þeirra er formaður Landssamband eldri borgara og hin var varaformaður Félags eldri borgara í Reykjavík, þegar hún er skrifuð árið 2007 — að áhyggjuefnið er það að standa berskjaldaður fyrir framan stofnanir og yfirvöld ef valdið er misnotað á einhvern hátt, innan og utan stofnana. Þá er talað um kjaramál, eins og í fyrri greininni hjá Margréti Margeirsdóttur, skattamál og þjónustu. Þess vegna leyfði ég mér að nefna þetta hér áðan. Við vitum að það er jú enginn aðili sem tekur heildstætt á þessu eða er að leiðbeina fólki innan kerfis.

Í þessari grein er líka verið að tala um lífeyrismálin og mál sem þeim eru tengd, skattamál, en einnig búsetumál, skort á þjónustu, bæði utan stofnana aldraðra sem og innan þeirra, af því að hópurinn hefur jú kannski ekki allur efni á því að leita aðstoðar lögfræðinga.

Í grein Þórunnar er líka minnst á kjarabæturnar. Hún nefnir að eldri borgarar, sem eru í leit að hentugra húsnæði, séu dæmi um hóp sem fær misvísandi upplýsingar um hvað sé þjónustuíbúð eða öryggisíbúð og allt slíkt. Þess vegna leyfði ég mér að tala um þetta hér áðan í hinu stóra samhengi af því að við eigum að gera það, að velta því fyrir okkur hvað slíkur umboðsmaður mundi hugsanlega fá inn á borð til sín. Það rekja þær, þessar ágætu konur, ágætlega að mínu viti. Af því að við erum nú þegar að fjalla um velferðarmálin í tengslum við húsnæði þá finnst mér alla vega, miðað við það upplegg sem þar er undir að hluta, að það þurfi að breyta því töluvert til þess einmitt að mæta þessum hópi til framtíðar.

Í grein Þórunnar H. Sveinbjörnsdóttur segir, með leyfi forseta:

„Eldri borgarar sem eru í leit að hentugra húsnæði eru dæmi um hóp sem fær misvísandi upplýsingar um hvað sé þjónustuíbúð eða öryggisíbúð og þurfa opinberir aðilar, þar með talinn umboðsmaður aldraðra ef við hefðum hann, að koma að því að fá fasta og örugga skilgreiningu á þessum íbúðamálum. Ekki má kaupa köttinn í sekknum.“

Þetta finnst mér vera mjög mikilvægt.

Ég er líka alveg sammála því, eins og hér kom fram, að við þurfum að gæta að orðræðu okkar, við spyrðum oft saman eldri borgara og öryrkja. Þetta er alls ekki sama mengið, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á. Stór hluti þessa hóps býr við bág kjör, er að berjast við kerfið, eins og sagt er, og það hefur okkur sem talsmenn sína af því að hann hefur ekki verkfallsrétt. Þess vegna eru þessir hópar kannski gjarnan spyrtir saman, en auðvitað eigum við ekki að gera það. Ekki frekar en, eins og Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir bendir á í grein sinni, þegar verið er að tala um rétt sjúklinga og annað slíkt, aldraða og veika sem festast inni á sjúkrahúsum fram að dvöl á hjúkrunarheimili; hún bendir á að fráflæðisvandi sjúkrahússins einskorðist ekki við eldri borgara. Hún bendir einnig á að enginn annar aldurshópur fái slíka umfjöllun og lítur á það sem aldursmismunun. Þegar við erum að tala um að fólk hafi það misgott þurfum við alltaf að gæta okkar í því að það eru ekkert allir undir í því frekar en í öðru.

En mig langaði aðeins að koma hingað upp og tjá mig um þetta af því að mér finnst að við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvers vegna þetta hafi ekki náð fram að ganga og að við verðum að reyna að átta okkur á því utan um hvað þessi aðili á að ná; það á ekki bara að leiðsegja fólki í gegnum kerfi sem við komum ekkert að. Við komum að því með lagasetningu sem við erum meðal annars að vinna að í dag.