145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

26. mál
[17:38]
Horfa

Flm. (Páll Valur Björnsson) (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek heils hugar undir með henni. Eins og kom fram hjá henni þá vona ég svo sannarlega að þetta fáist samþykkt. Það er alveg rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að það er mjög mikilvægt að börn viti réttindi sín og þekki þau. Og ekki bara þau heldur er þetta þá kannski líka orðinn fastur punktur í skólastarfinu því að þetta er ekkert endilega svo mikið til umræðu í skólum.

Við leggjum gríðarlega áherslu á að börn kunni íslensku og geti reiknað, en eins og ég sagði áðan í ræðu minni þá bind ég miklar vonir við að samfélagskennsla verði aukin. Það er stór hluti af þessari samfélagskennslu að kenna börnum réttindi sín og hvar þau standa.

Við vitum, eins og kemur fram í skýrslunni frá UNICEF, sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, að yfir 6.000 börn búa við verulegan skort á Íslandi sem er með hreinum ólíkindum. Það segir okkur að víða er pottur brotinn. Þó að ég vilji ekki kenna skólum um það þá eru þeir einhverjar mikilvægustu stofnanir landsins til að finna út hvar pottur er brotinn hjá börnum. Kennarar sem leggja sig alla fram við að sinna nemendum sínum, eins og starfslýsing þeirra segir til um og siðareglur, eiga að sjá þetta strax. Það á þá að vera hægt að grípa inn í og segja börnum hver réttindi þeirra eru, hvert þau geta leitað og veita þeim alla þá aðstoð sem kennurum er unnt. Kennarastarfið er meira en það að kenna, það er svo rosalega víðfeðmt ef út í það er farið. Ég lít á kennarastarfið sem lykilstarf hvað varðar börn, og á þá bæði við leikskólakennara og kennara í skólum. Þar er hægt að sjá hvar kreppir að.

Ég segi það og tek undir það með hv. þm. Elínu Hirst alveg heils hugar að ég tel að við, talsmenn barna, höfum staðið okkur ágætlega á þeim tæpum tveimur árum sem við höfum verið starfandi og höfum verið að reyna allt sem við getum til að vekja athygli á aðstæðum barna og hvað megi betur fara. Ég er alveg á því að verði þetta niðurstaðan, sem ég trúi að verði, þá er það mjög mikilvægt skref í þá átt að börn átti sig á réttindum sínum og ekki bara börn heldur allir sem starfa í kringum þau, fullorðnir og kennarar sérstaklega.