145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

dagur helgaður fræðslu um mannréttindi barna.

26. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Páll Valur Björnsson) (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður segir. Það sem hún nefndi fyrst, í seinna andsvari sínu, var það hvernig staðan væri á Alþingi, hvað varðar þingmannamál, og hvernig sú dagskrá sem við höfum horft upp á í haust hefur þróast. Eins og ég sagði áðan þá er hér í dag verið að leggja fram átta eða níu þingmannamál, ég er ekki alveg klár á því hve mörg þau eru; allt saman rosalega góð og gegn mál sem eru til þess fallin að breyta samfélaginu til hins betra og eru öll í þágu almannaheilla. Ég segi ekki að þau mál sem lögð hafa verið fram séu það ekki, en ég velti því fyrir mér að hér á haustmánuðum var þingið nánast óvirkt. Það voru ekki lögð fram þingmannamál vikum og mánuðum saman, áfengisfrumvarpið svonefnda hélt þinginu til dæmis í gíslingu, vildu margir meina, sem gerði að verkum að hér var ekki hægt að tala og ræða um málin. Hægt hefði verið að mæla fyrir öllum þessum málum snemma í haust, þau voru öll tilbúin þá og hugsanlega væru þau bara afgreidd.

Ég tek undir með hv. þingmanni, það er ófremdarástand á þessum málum. Flestöll mál sem hér fara í gegn og eru samþykkt eru ríkisstjórnarmál, það er kannski eðli málsins samkvæmt. En þegar svona mál koma fram, sem eru þverpólitísk — það eru þingmenn frá öllum flokkum á þessum málum — þá á þetta ekki að þurfa að vera vandamál. Þetta á bara að vera fyrst á dagskrá og til þess að gera að verkum að þessi mál fari í gegn. En kannski er mælt fyrir þeim og svo enda þau í bunkanum inni í nefnd og svo er verið að mæla fyrir þessu ár eftir ár í staðinn fyrir að koma þessu fyrr inn til flutnings á þingi og inn í nefndir, svo að hægt sé að greiða atkvæði um þau. Þannig er hinn lýðræðislegi vettvangur. Þetta er lýðræðislegur vettvangur til þess annaðhvort að samþykkja eða fella.