145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

40 stunda vinnuvika.

259. mál
[17:57]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka flutningsmanni fyrir þetta frumvarp. Það er virkilega athyglisvert og áhugavert og ég hefði viljað sjá það fyrr, eftir að hafa búið í þessu landi og verið á íslenskum vinnumarkaði í yfir 40 ár. Ég velti samt fyrir mér hvort þetta sé mögulegt á Íslandi. Í fiskvinnslu þar sem ég þekki til lifir fólk hreinlega ekkert á því. Þó að það vinni átta tíma á dag er ekki nokkur leið að lifa á því.

Þó að það komi fram að laun eða kjör eigi ekki að skerðast við styttingu vinnudags er ég hræddur um að það sé það fyrsta sem mundi gerast ef þetta yrði lögsett. Auðvitað mundu launin skerðast og eru þau ekki há fyrir.

Mig langar að spyrja þingmanninn um þetta þótt ég ætli ekki að lengja umræðuna. Ég hef lifað í þessu landi í 54 ár og upplifað hvernig er að vera á vinnumarkaði sem verkamaður. Þegar ég var í þessum geira, t.d. fiskvinnslu, varð ég hreinlega að vinna helst 10–15 klukkutíma á dag til að geta séð mér og fjölskyldu minni farborða. Ég velti fyrir mér hvernig í ósköpunum fólk á að fara að því að lifa af 35 stunda vinnuviku í fiski eða þjónustustörfum þar sem eru skammarlega lág laun.