145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

aðgerðaáætlun gegn súrnun sjávar á norðurslóðum.

160. mál
[18:08]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu eins og flestum sem hafa verið fluttar í dag. Ég tel að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál og það sést náttúrlega á flutningsmönnum þess. Þetta eru 23 þingmenn úr öllum flokkum sem segir okkur hversu mikilvægt málið er og hversu bráðnauðsynlegt sé að koma þessu í verk sem fyrst. Ég tek undir með hv. þm. Elínu Hirst að það hefði mátt komast mun fyrr á dagskrá.

Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með það að súrnun sjávar er helst komin til, eins og kemur fram í greinargerðinni, vegna útblásturs koltvísýrings og nýtingar manna á jarðefnaeldsneyti. Við vitum það núna sem erum í stjórnmálum og fylgjumst með að áhugi á norðurslóðum hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og menn eru uppi með miklar og stórar hugmyndir um siglingaleiðina norður fyrir norðurpólinn, í gegnum norðurpólinn, og um að umferðin fari öll hér í gegn.

Við getum rétt ímyndað okkur ef koltvísýringsútblásturinn sem nú er er þegar farinn valda súrnun sjávar hvernig það verður ef skipaumferðin verður eins og reiknað er með. Nú þegar er mikill áhugi á frekari skemmtiferðasiglingum upp með austurströnd Grænlands og umferð mun aukast mikið.

Ég tel að það eigi að leggja mikla áherslu á þetta mál og ræða það mun meira á þingi og í samfélaginu en er gert. Loftslagsmálin eru helstu mál samtímans og mikilvægustu mál samtímans.

Mig langar líka að nefna, af því að komið er inn á það, að við höfum mikla möguleika á að láta til okkar taka í þessum málum og í framtíðarstefnunni í málaflokknum í Norðurskautsráðinu og á alþjóðlegum vettvangi. Ég sit í Vestnorræna ráðinu sem hélt þemaráðstefnu um helgina, sem fjallaði reyndar um lýðræði á norðurslóðum, en í gær mælti formaður Íslandsdeildar, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrir tillögu til þingsályktunar um að styrkja samstarf við Grænland og Færeyjar um sjávarútvegsmál. Meðal annars er nefndur samstarfsmöguleiki á sviði hafrannsókna og stöðu umhverfismála og sjálfbærni.

Við vorum einmitt í heimsókn hjá Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði á fimmtudaginn þar sem þingmönnum frá Færeyjum og Grænlandi var kynnt sú starfsemi sem þar fer fram. Þeir voru virkilega ánægðir og áhugasamir um hana og létu í það skína að þeir væru tilbúnir í miklu meira samstarf. Vissulega kostar allt svona peninga, eins og venjulega, en þarna er möguleiki á því að Grænlendingar og Færeyingar geti komið inn með fjármagn, ég segi svona. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur, þessar þrjár þjóðir á Vestur-Norðurlöndum, að standa saman í þessu. Mikilvægasta sameiginlega auðlindin okkar er hafið. Það vita það allir að yfir 90% af útflutningstekjum Grænlands og Færeyja eru sjávarafurðir og um 40% frá okkur.

Þótt vissulega sé farið að leggja meiri áherslu á að fara í námuvinnslu og olíuvinnslu við Grænland er það samt í biðstöðu því að þeim er mjög annt um auðlindir sínar og hafið í kringum sig, af því að það er lífæðin. Sjávarútvegurinn heldur lífinu í þessum þjóðum og við verðum að leita allra leiða til þess að koma í veg fyrir að hér verði farið inn í krafti frekju og græðgi stórra fyrirtækja sem ásælast auðlindir í hafinu á norðurslóðum og að ekkert verði gert nema í fullu samráði við íbúa á svæðinu, ég tala nú ekki um frumbyggja. Þetta er gríðarlega mikilvægt, eins og fram kemur í þessari þingsályktunartillögu. Við höfum aðstæðurnar. Við getum bætt þær og við getum bætt í og við getum aukið samstarfið við nágrannaþjóðir okkar.

Ég legg til að það verði meðal annars rætt hér og farið í viðræður við bæði Færeyinga og Grænlendinga því að áhugi þeirra er svo sannarlega til staðar, eins og ég hef sagt. Þetta er sameiginleg auðlind okkar á norðurslóðum og við verðum að passa vel upp á hana og láta einskis ófreistað til að afla okkur allra upplýsinga fagmanna um hvernig staðan er á lífríkinu í hafinu í kringum löndin okkar.