145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

328. mál
[18:13]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum þar sem Alþingi ályktar að fela hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að setja bann við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum. Ráðherra móti í kjölfarið áætlun sem miði að því að gúmmíkurli úr dekkjum verði skipt út fyrir hættuminni efni á þeim leik- og íþróttavöllum þar sem það er að finna. Því verki verði lokið fyrir árslok 2016.

Meðflutningsmenn á tillögunni ásamt þeim er hér stendur eru eftirtaldir hv. þingmenn: Ásmundur Einar Daðason, Frosti Sigurjónsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson, Vigdís Hauksdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Jón Gunnarsson, Valgerður Gunnarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Birgitta Jónsdóttir, Kristján L. Möller, Oddný G. Harðardóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Brynhildur Pétursdóttir og Páll Valur Björnsson. Ber að þakka þann þverpólitíska stuðning sem málið hefur fengið og umræðuna. Ég mun styðjast við greinargerð og þá umræðu sem málið fékk á Alþingi í lok nóvember á síðastliðnu ári.

Með þingsályktunartillögu þessari er ætlunin að girða eins hratt og unnt er fyrir notkun eitraðra og ef til vill heilsuspillandi efna á svæðum sem m.a. eru ætluð til íþróttaiðkunar barna og unglinga. Að mati flutningsmanna tillögunnar er brýnt að gripið sé til aðgerða í þessa veru án tafar enda óréttlætanlegt að heilsu og öryggi barna sé teflt í hættu á meðan beðið er óyggjandi sannana fyrir skaðsemi efnanna.

Umræða um dekkjakurl og áhrif þess á umhverfið og heilsu og öryggi barna hefur má segja verið allt frá því að Læknafélag Íslands ályktaði um þetta mál og mögulega skaðsemi þess árið 2010.

Gúmmíkurl úr dekkjum hefur verið notað sem fyllingarefni á leik- og íþróttasvæðum hérlendis, einkum gervigrasvöllum til knattspyrnuiðkunar, og það um nokkurra ára skeið. Töluverð umræða fór þannig fram um hugsanlega skaðsemi þessa kurls í kjölfar ályktunar Læknafélags Íslands á aðalfundi í október 2010, þar sem skorað var á stjórnvöld að banna notkun efnisins á íþrótta- og leiksvæðum þar sem það innihéldi krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni.

Í svörum hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um notkun gúmmíkurls á 139. löggjafarþingi kom m.a. fram að ráðherra hygðist beina því til Umhverfisstofnunar að gefa út tilmæli um að leitast skyldi við að nota önnur efni við uppsetningu nýrra leik- og íþróttavalla og endurnýjun gamalla. Slík tilmæli hafa gefið góða raun í Svíþjóð og Noregi. Til að mynda minnkaði notkun á slíkum völlum úr 91% af notkun slíkra valla niður í 40% á fjögurra ára tímabili í Svíþjóð. En einhverra hluta náðist ekki að fylgja málinu eftir og það féll niður þar til Morgunblaðið birti grein eftir Ásdísi Ásgeirsdóttur undir yfirskriftinni „Ekki eru öll kurl komin til grafar“ þann 13. september á síðastliðnu ári. Þar var vakin athygli á því að lítið hefði breyst á síðustu fimm árum og m.a. bent á að dekkjakurl væri á gervigrasvelli ÍR sem þó væri aðeins fimm ára gamall. Jafnframt voru nefnd dæmi frá Bandaríkjunum sem renndu stoðum undir kenningar um skaðvænleg áhrif dekkjakurls á heilsu.

Í kjölfar birtingar greinarinnar var stofnaður þrýstihópur á netinu sem skorar á Reykjavíkurborg að hreinsa gervigrasvelli borgarinnar af gúmmíkurli úr dekkjum. Telur sá hópur ríflega 1.000 manns. Á vegum hópsins var haldinn íbúafundur í Frostaskjóli 27. september síðastliðinn þar sem kom skýrt fram vilji foreldra þeirra barna sem iðka reglulega íþróttir á umræddum völlum og hafa áhyggjur. Þeir gera kröfu um að gripið sé til aðgerða. Sama dag sendi stjórn Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra, frá sér ályktun þar sem farið var fram á að sveitarfélög landsins réðust án tafar í endurnýjun valla „sem þaktir eru heilsuspillandi dekkjakurli svo börnin okkar geti leikið sér og þjálfað sína færni örugg og við heilsusamlegar aðstæður“, eins og þar stendur, virðulegi forseti.

Í greinargerð með fyrrnefndri ályktun Læknafélags Íslands frá 2010 segir að meðal efna í dekkjakurli finnist benzapyren, sem sé krabbameinsvaldandi, og að dietyxhexylftalat og butylbenzylftalat — ég vil afsaka það hér, herra forseti, ef ég fer ekki alveg hárrétt með framburð þessara flóknu efnasamsetninga — geti valdið ófrjósemi, og svo er talað um fenól sem safnist fyrir í náttúrunni og geti haft langtímaáhrif á hana, sink sem sé í vissum tilvikum eitrað fyrir lífverur, og blý sem valdi ófrjósemi og skemmdum á taugakerfi. Börn séu sérstaklega næm fyrir áhrifum blýs.

Læknablaðið tók í kjölfar þessarar ályktunar viðtal við framsögumann hennar, Þórarin Guðnason, hjartalækni og fyrrum varaformann Læknafélags Íslands. Þar sagði Þórarinn meðal annars:

„Í dekkjakurli eru krabbameinsvaldandi efni og önnur eiturefni sem geta verið hættuleg fyrir börn og aðra iðkendur íþrótta á gervigrasvöllum. Í ýmsum nágrannalöndum okkar er mælt með takmörkun á notkun dekkjakurls vegna þessara efna. Slíkar takmarkanir eru í Þýskalandi og Svíþjóð. Norðmenn hafa rannsakað nokkuð og bent á hættuna á umhverfisáhrifum af kurlinu á nærlendi gervigrasvalla. Það er viðurkennt að í hjólbörðum eru ýmis eiturefni sem meðhöndla verður af varúð. Skýrar reglur eru til staðar um meðhöndlun og förgun ónýtra hjólbarða en þegar búið er að kurla dekkin niður og dreifa þeim á íþróttasvæði barna og unglinga gilda reglurnar ekki. Þó er ljóst að eiturefnin eiga mun greiðari leið út í umhverfið úr dekkjakurlinu en þegar þau eru bundin í heila hjólbarða.“

Þórarinn ávarpaði fyrrnefndan íbúafund í Frostaskjóli þar sem hann ítrekaði þessi áður fram komnu sjónarmið og gaf greinargott yfirlit yfir þau eiturefni sem óumdeilanlega er að finna í gúmmíkurli úr dekkjum.

Nauðsyn þess að grípa til aðgerða má finna í svari hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um gúmmíkurl úr dekkjum frá 139. löggjafarþingi. Flutningsmenn þessarar tillögu eru ósammála þeirri nálgun að ekki þurfi að grípa til aðgerða nú þegar og telja að börnin eigi að njóta vafans sem ríkir um skaðsemi dekkjakurls. Það er nú kannski kjarninn í þessu máli, vegna þess að það skal ítrekað og tekið fram að engar rannsóknir um skaðsemi eða langtímaáhrif dekkjakurls eru óyggjandi, en það er ekki hins vegar hægt að réttlæta það að taka þessa áhættu til þess að spara peninga þegar teflt er um heilsu barna og ungmenna.

Reynslan hefur sýnt að taka þarf á þessu máli. Ég tel umræðuna sem var hér fyrir fimm árum af hinu góða. Hún spratt fram í kjölfar þessarar ályktunar og stuðlar að vitundarvakningu, en lítið hefur þó áunnist í þessu efni.

Ég held þó, virðulegi forseti, að sveitarfélögin séu að bregðast við víða og reyna að skipta þessu út.

Vilyrði ráðherra um að sett yrðu tilmæli um notkun annarra efna en dekkjakurls á leik- og íþróttavöllum hafa jafnframt litlum árangri skilað og enn er dekkjakurl notað við uppsetningu nýrra valla.

Ég get vitnað hér í nýlega blaðagrein þar sem verið var að bæta á dekkjakurli. Þá er ég að vísa í blaðagrein á vefmiðli Morgunblaðsins frá því 27. janúar þar sem fyrirsögnin er: „Dekkjakurl er notað þvert gegn ákvörðun“.

Málið var tekið upp hér í umræðu á Alþingi 30. nóvember síðastliðinn þar sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra var til svara. Þar sagði hæstv. ráðherra m.a. að ráðuneytið hefði falið Umhverfisstofnun að skoða þessi mál út frá þeirri umræðu sem farið hefði fram. Við þá skoðun hefði meðal annars komið í ljós að hættuleg efni gætu mögulega komist út í umhverfið í einhverju magni í gegnum sigvatn frá völlunum. Það tel ég til að mynda að þurfi að skoða frekar hvort viðeigandi mengunarvarnir og frárennsliskerfi séu til staðar og hver lengri tíma áhrif á umhverfið gætu mögulega orðið ef svo er ekki.

Varðandi þær reglugerðir sem gilda um þetta vísaði hæstv. ráðherra í reglugerð nr. 888/2015, um skráningu, mat og leyfisveitingu og takmarkanir efnisnotkunar. Ber að haga notkun dekkjakurls á íþróttavöllum í samræmi við þær takmarkanir. Ég held að það væri ágætistilefni fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd að ganga eftir upplýsingum í þá veru.

Um eftirlit með notkun gúmmíkurls var ráðgert að fara af stað með verkefni í samvinnu við Knattspyrnusamband Íslands í janúar sem leið um efnagreiningu á gúmmíkurli. Þá hafa heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna upplýsinga- og eftirlitsskyldu um þörfina til verndar heilsu og umhverfi og það bæði gagnvart almenningi og Umhverfisstofnun. Þannig koma fjölmargir aðilar að þessu máli. Málið var sérstaklega tekið fyrir á fundi í október 2011 með heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, umhverfisráðuneytinu og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Þar var farið yfir heilbrigðiseftirlit og hvað kanna þyrfti varðandi loftgæði, sótthreinsun og þrif þegar gúmmíkurl er notað á leik- og íþróttasvæðum. Þannig hefur umræðan kallað fram viðbrögð.

Ég hef þegar nefnt verkefni Umhverfisstofnunar og Knattspyrnusambandsins. Í framhaldinu er það ætlun Umhverfisstofnunar að skoða hvort nauðsynlegt sé að setja reglur um notkun efna á leikvallasvæðum og íþróttavöllum. Þá hafa heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gert frekari kröfur varðandi umgengni við gervigrasvelli sem miða að því að auka öryggi og hollustuhætti fyrir iðkendur, þjálfara og áhorfendur. Það leiðir af sér að mikilvægt er að draga það fram hvaða leiðir hafa raunverulega verið farnar, þannig að aðilar hafi sannarlega farið yfir þessi mál. Ég vísa því til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að kanna það mál, hvernig það hefur gengið eftir.

Að öllu þessu sögðu telja hv. flutningsmenn þingsályktunartillögunnar ljósa nauðsyn þess að stíga skrefið til fulls og banna þegar í stað áframhaldandi dreifingu gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttasvæði hérlendis og hefja í beinu framhaldi vinnu eftir útfærðri áætlun. Hæstv. ráðherra lofaði því í umræðu hér í lok október á síðasta ári að fylgja þessu máli fast eftir. Ég trúi því að tillagan muni styðja hæstv. ráðherra í því að ljúka þessari áætlun farsællega og í samvinnu við hlutaðeigandi aðila og hefja í beinu framhaldi vinnu við að skipta efninu út fyrir önnur hættuminni efni.

Þessi þingsályktunartillaga og umfjöllun í hv. umhverfis- og samgöngunefnd er til þess fallin að styðja þetta mál og fá farsæla niðurstöðu í málið og til þess að tryggja þeim sem iðka leik- og íþróttir á völlunum, ekki síst börnunum okkar, sem öruggast og heilnæmast umhverfi.

Ég vil í lokin benda á að áhrif dekkjakurls á heilsu og umhverfi hefur verið rannsakað víða. Þar sem ég hef leitað mér upplýsinga hafa ekki komið fram óyggjandi sannanir um skaðsemi dekkjakurls eða hægt að staðfesta um langtímaáhrif þess á heilsu eða umhverfi, en rannsóknir eru hafnar. Ég vísa hér til þriggja ára rannsóknar í Kaliforníufylki sem er í gangi og ég hef það staðfest á fréttamiðli reyndar, ESPN, þar sem verið er að reyna að kanna frekar langtímaáhrifin af þessu efni.