145. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2016.

notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttavöllum.

328. mál
[18:30]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og fyrrverandi hæstv. fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir. Hv. þingmaður og þáverandi hv. þm. Siv Friðleifsdóttir tóku málið til umræðu út frá fyrirspurn hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur á sínum tíma. Það studdi við málið sem fékk meiri athygli. Því ber að fagna. Ég vil líka taka það fram, hæstv. forseti, að ég hef fengið mjög góðan stuðning og leiðbeiningar frá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur um það hvernig leiða eigi mál áfram. Þetta er sannarlega ekki auðvelt mál og það tengist svari mínu við fyrstu spurningunni um hvort beinlínis sé hægt að gefa út fortakslaust bann þar sem þetta eru efni sem ekki er bannað að flytja inn. Það liggur ekki ljóst fyrir, og nú vitna ég í umræðuna sem fram fór hér 30. október á síðastliðnu ári með hæstv. ráðherra, og þarf að skoða í samhengi við þær reglugerðir sem eru til staðar. Af því að hv. þingmaður spyr svo hreint út þá kom þetta mál upp og var ein af spurningum sem lagðar voru fyrir ráðherra. Eftir að hafa farið í þessa viðamiklu reglugerð og viðauka með henni get ég ekki svarað því hér og nú, en ég geri ráð fyrir því að það verði hluti af vinnu með tillöguna í nefnd að kanna það gaumgæfilega.