145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

mótvægisaðgerðir vegna viðskiptabanns á Rússland.

[10:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og byggðamálaráðherra um það hvort ekki sé senn að vænta ákvörðunar ríkisstjórnar um mótvægisaðgerðir í þágu þeirra byggðarlaga og þess verkafólks sem verður fyrir þyngstum búsifjum vegna viðskiptabanns Rússa sem aftur er í kjölfar þess að Ísland ákvað að slást í hópinn með ESB/NATO-klúbbnum um refsiaðgerðir gegn Rússlandi.

Byggðastofnun skilaði skýrslu um mat á áhrifum þessa strax í septembermánuði síðastliðnum og það má spyrja til hvers sú skýrsla var gerð ef ekkert á að gera með hana.

Nú hefur ríkisstjórnin nýlega ákveðið að halda áfram og framlengja þessar aðgerðir gegn Rússum sem þýðir að bannið mun standa að minnsta kosti fram á sumar með mjög umtalsverðum áhrifum fyrir verkafólk, sjómenn auðvitað líka, en sérstaklega landverkafólk og mörg byggðarlög sem eru mjög háð veiðum og vinnslu uppsjávarafla. Það gildir um Þórshöfn og svæðið þar í kring, Raufarhöfn og Langanesbyggð, og gildir alveg sérstaklega um Vopnafjörð. — Ef hæstv. ráðherra vildi tolla í salnum meðan átt er orðastað við hann.

Þetta á við Vopnafjörð þar sem vinnsla á uppsjávarfiski er eina landvinnslan á staðnum og Fjarðabyggð, Djúpavog sem verður fyrir þungu höggi þegar eldisfisksmarkaður lokast þar ofan í það högg sem sá staður fékk á sig þegar Vísir fór burt með allt sitt hafurtask og allan kvóta byggðarlagsins með. Og áfram auðvitað svæðið Höfn, Eyjar og svo framvegis.

Þetta er sérstaklega erfitt fyrir litlu byggðarlögin þar sem er einhæft atvinnulíf og verkafólkið í landi hefur borið uppi árstekjur sínar með miklum vinnutörnum við frystingu á uppsjávarafla. Byggðastofnun áætlar tekjutapið umtalsvert, mælt í hundruðum milljóna og milljörðum hjá landverkafólki, sjómönnum og sveitarfélögunum. Sveitarfélögin verða fyrir þessu á tvennan hátt, þ.e. bæði í töpuðum útsvarstekjum og minni aflagjöldum.

Herra forseti. Mitt mat er að það geti ekki gengið að landverkafólk og veikburða og fámenn byggðarlög beri allan herkostnaðinn af utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar eða landsins. Það er ekki hægt að ætlast til þess að menn sendi reikninginn norður á Vopnafjörð þegar þeir taka (Forseti hringir.) ákvarðanir af því tagi sem þeir tóku með því að vera þátttakendur í þessum viðskiptaþvingunum. (Forseti hringir.) Þannig að ég spyr: Er ekki senn að vænta ákvörðunar í ríkisstjórn um mótvægisaðgerðir og í hverju verða þær fólgnar?