145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

mótvægisaðgerðir vegna viðskiptabanns á Rússland.

[10:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er nú svolítið sérkennilegt að hv. þingmaður sé með mikið háreysti yfir því að Ísland skuli fylgja bandalagsþjóðum sínum í aðgerðum þegar hann stóð sjálfur fyrir því að fara með her inn í Írak og studdi þá ákvörðun NATO án þess að spyrja mjög marga hér um það. (SJS: … svara spurningunum í staðinn fyrir útúrsnúninga.)

Það er rétt hjá þingmanninum að skýrsla Byggðastofnunar sýnir að landverkafólk verður fyrir umtalsverðu tjóni. Við höfum verið að skoða með hvaða hætti sé hægt að koma til móts við það.

Það er hins vegar rangt hjá þingmanninum að það séu einungis aðgerðir Rússa sem valdi því að ekki verður mikil loðnuvinnsla þetta árið. Því miður er loðnustofninn búinn að vera núna um alllangt skeið frekar lítill, hefur gengið í sögulega litlu magni, getum við sagt, hér upp að landinu. Þó svo að ekki hefðu komið til áhrif af gagnaðgerðum Rússa þá væri lítil loðnuvinnsla á öllum þessum stöðum með nákvæmlega tilheyrandi sama tapi fyrir landverkafólk. Það er rétt að gera sér grein fyrir því án þess að vera að saka ríkisstjórnina um það. Við ráðum því miður ekki yfir náttúruöflunum.

Það væri hins vegar áhugavert ef þingmaðurinn kæmi hér upp með tillögur um hvernig hægt væri að koma til móts við ólíkar byggðir. Við höfum lagt áherslu á og ég hef sagt í fjölmörgum viðtölum að sérstaklega séu til skoðunar annars vegar Vopnafjörður og hins vegar Djúpivogur, reyndar eru mismunandi aðstæður í þessum byggðarlögum, en þau séu þannig stödd að loðnubrestur annars vegar og hins vegar viðskiptabann Rússa og áhrif þess á sölu afurða frá Djúpavogi valdi því að við verðum að koma til móts við þau.

Það er fyrirhugaður fundur á Vopnafirði á mánudaginn þar sem heimamenn verða upplýstir um (Forseti hringir.) hvaða hlutum við erum að vinna að. Byggðastofnun fer með það verkefni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar eins og hv. þingmaður veit reyndar, vona ég.