145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

málefni barna.

[10:51]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég verð að segja að þessi svör ráðherrans gleðja mig afskaplega mikið. Hún svaraði eiginlega seinni spurningunni sem ég ætlaði að beina til hennar um að láta taka þetta verkefni út því það er ósk þeirra sem að verkefninu standa á Suðurlandi að það verði gert. Það var tekið út árið 2009 af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem skilaði þeirri niðurstöðu að þetta væri gríðarlega gott og þarft verkefni. Þess vegna gleður það mig afskaplega mikið og ég veit að það gleður þá sem að verkefninu standa að taka eigi það út.

Vonandi liggur sú niðurstaða fyrir á þessu ári og sem fyrst til að hægt sé að taka ákvörðun um áframhaldið. Ekkert er eins vont fyrir fólk sem starfar í þessum geira og óvissan, að vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér og búa kannski við þá spurningu allt árið, lifum við af eða ekki? Mun betra væri að starfrækja þetta verkefni með langtímaplan í huga þar sem það er á fjárlögum og fólk getur starfað af heilum hug. Í þessu teymi starfar gott fagfólk sem leggur mikið á sig (Forseti hringir.) til að hjálpa fólki til að takast á við þau vandamál sem ég nefndi áðan.