145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

málefni barna.

[10:52]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný fyrir fyrirspurnina og undirtektir þingmannsins við þessa fyrirætlan okkar.

Það er annar þáttur sem mun líka snúa að Alþingi og okkur í ráðuneytinu. Það eru mörkin annars vegar á milli þeirrar þjónustu og þeirra verkfæra sem hið opinbera vill bjóða upp á í samstarfi við sveitarfélögin sem bera ábyrgð á barnaverndinni, bera ábyrgð á leik- og grunnskólunum okkar, bera ábyrgð á félagsþjónustunni, og hins vegar því sem sveitarfélögin sjálf eiga að kosta. Ég hef líka lagt áherslu á mikilvægi þess, þegar kemur að slíkum verkefnum, að þau séu í boði á landsvísu þannig að við séum ekki að mismuna börnum og fjölskyldum á milli einstakra sveitarfélaga eða reynum eins og hægt er að koma í veg fyrir það. En ég held að það verði mjög mikilvægt og áhugavert að fá þessar niðurstöður og síðan tekur Alþingi afstöðu í framhaldi af því.