145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

framtíð sjávarútvegsbyggða.

[10:58]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það kann vel að vera að strandveiðar hafi komið sér vel fyrir Reykvíkinga, það er allt í lagi, þær komu sér svo ljómandi vel fyrir ýmsar aðrar byggðir landsins sem þurftu sárlega á þeirri innspýtingu að halda. Ég held að það væri mikilsvert fyrir þau svæði ef hægt væri að rýmka reglur um strandveiðarnar, endurskoða svæðaskiptinguna og koma því til leiðar að þetta verði varanlegri og öflugri valkostur en hann er í dag.

En af því hæstv. ráðherra nefndi byggðakvótann og það svigrúm sem er í þessum 5,3% innan núverandi kvótakerfis, þá er þar einungis verið að tala um 6–8 þús. tonn. Það er kvóti sem stjórnvöld úthluta eins og hálfgerðri ölmusu út til byggðanna. Það er bara allt annar hlutur en uppboðspottur sem kvótalitlar (Forseti hringir.) og kvótalausar útgerðir geta boðið í með frjálsum (Forseti hringir.) tilboðum og fengið úthlutað án þess að þurfa að gerast leiguliðar hjá stórútgerðinni.