145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

búvörusamningar.

[11:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að þrátta um Evrópusambandið. Ég veit ekki hve margir hér inni hafa áhuga á að ganga til liðs við það eins og þar háttar (Gripið fram í: Tveir.) í augnablikinu. Tvær hendur á lofti eða þrjár.

Hins vegar er það alrangt hjá þingmanninum að túlka þetta með þessum hætti því að í tollasamningnum er að ég held um 3 þús. tonna kvóti til útflutnings. Við framleiðum um 10 þús. tonn. Það er ekki markmið í sjálfu sér að fjölga sauðfé á Íslandi. Það er markmið að efla arðsemina af þeirri grein. Síðan höfum við fjölmarga tollasamninga við fjölmörg önnur lönd sem geta tryggt að við getum notið tollfrelsis í þeim viðskiptum. Að því hefur verið unnið á þessu sviði eins og í sjávarútveginum.

En það sem er fréttin í þessu er að íslensk kindakjötsframleiðsla er framleidd á heimsmarkaðsverði. Það er fréttin. Það hefur tekist í gegnum árin að tryggja það, með stuðningi ríkisins, (Forseti hringir.) að við erum orðin samkeppnishæf um verð í framleiðslu á þessari frábæru vöru og getum boðið hana á öðrum mörkuðum á vonandi enn hærra verði en við höfum séð til þessa.