145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TISA-samningurinn.

[11:09]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mun beina hér tveimur, þremur spurningum til hæstv. utanríkisráðherra um svokallaða TiSA-samninga, en ég hef nokkrum sinnum í ræðustól Alþingis rifjað upp tilkomu TiSA-viðræðnanna, Trade in Services Agreement, samninga um markaðsvæðingu þjónustuviðskipta, og sett þessar viðræður í sögulegt samhengi GATT-samninganna á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, World Trade Organization, sem hófust um miðjan tíunda áratuginn en sigldu í strand tíu árum síðar, árið 2005.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum reynt að standa þessa vakt og gert það í langan tíma. Ég rifja hér upp tillögu til þingsályktunar sem allur þingflokkurinn flutti á þingi 2003–2004, við fluttum þetta mál ítrekað þar sem við óskuðum eftir úttekt um GATS-samninginn og settum reyndar fram í því þingmáli okkar eigin ítarlegu úttekt á málinu. Við höfum því reynt að koma að þessum málum.

Ég vek einnig athygli á því að verkalýðshreyfingin, þá einkum BSRB, hefur staðið þessa vakt, gerði það þegar GATS-samningarnir fóru af stað um miðjan tíunda áratuginn.

Eins og ég segi sigldu þessar viðræður í strand 2005. Þær fóru leynt lengi framan af. Breska stórblaðið Guardian upplýsti um innihald samninganna vorið 2002 og þá jókst andstaðan við viðræðurnar. Áður minnumst við hatrammra mótmæla gegn þeim í Seattle 1999 og í Evrópu í kjölfarið.

Nú er það Wikileaks sem hefur tekið að sér hlutverk upplýsandans gagnvart TiSA-samningunum sem koma í kjölfar þessara GATT-viðræðna. Ef ekki hefði verið fyrir aðkomu Wikileaks hefðum við ekki fengið þær upplýsingar sem við þó höfum fengið um TiSA-viðræðurnar. Þær fengum við sumarið 2014 og þá hvernig staðan var í þeim viðræðum í aprílmánuði það ár.

Spurningin er: Hvað er við þessa samninga að athuga? Í fyrsta lagi er verið að semja um skipulag samfélagsins, að undirgangast að færa tiltekin þjónustusvið inn á markaðstorg þar sem jafnræði skuli ríkja, bæði innan þjóðríkjanna og á milli þeirra.

Tökum dæmi. Ef við settum heilbrigðissviðið undir TiSA mættum við ekki mismuna með skattfé á milli Orkuhússins annars vegar og Landspítalans hins vegar. Ef erlent þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði kæmi til Íslands mætti ekki heldur mismuna gagnvart því. Ég nefni þetta aðeins til skýringar, en það skal tekið fram að í TiSA-viðræðunum hafa íslensk stjórnvöld tekið afdráttarlaust fram að grunnþættir heilbrigðisþjónustunnar skuli undanþegnir þessum viðræðum. Ég hef áður fagnað því að svo skuli gert. Það er hins vegar ekki vitað hvað verður gert við ýmsa aðra þætti sem tengjast heilbrigðisþjónustunni. TiSA-samningarnir eru ólíkir GATT að því leyti að þar var undirritaður allsherjargrunnur og síðan tíndu menn út af grunninum, en í TiSA-viðræðunum setja menn inn á samningaborðið hvað þeir vilja semja um.

Í öðru lagi er það við þessa samninga að athuga að þeir eru óafturkræfir. Það sem núverandi ríkisstjórn semur um gerir hún fyrir hönd komandi ríkisstjórna og komandi kynslóða. Í þessu er fólgið fullveldisafsal.

Í þriðja lagi er hugmyndin sú að ágreiningsefni sem kunna að rísa verði færð undan löggjafarvaldi þeirra ríkja sem aðild eiga að samningunum og sett undir gerðardóma sem stórfyrirtækin hafi aðkomu að.

Í fjórða lagi er ámælisvert að við skulum slást í för með 50 ríkustu þjóðum heims gegn hinum snauða heimi. 123 ríki áttu aðild að GATT-viðræðunum en nú ætla 50 ríki að stilla hinum upp við vegg.

Í fimmta lagi er óásættanlegt að þetta skuli vera á bak við lukt tjöld. Þetta á allt að vera opið. Utanríkisráðherra upplýsir hvað ráðuneytið (Forseti hringir.) hefur gert en ekki hvað fer fram í umræðunum almennt.

Nú spyr ég hæstv. utanríkisráðherra og ég skal vera mjög stuttorður:

1. Hvert hefur verið framlag Íslands í þessum viðræðum? Ég horfi þá sérstaklega (Forseti hringir.) til fundarins í Genf í desember sem Morgunblaðið (Forseti hringir.) upplýsti ágætlega um.

2. Stendur það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur áður sagt, m.a. í svari við hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, (Forseti hringir.) að samningurinn verði ekki gerður opinber fyrr en frá honum hafi verið gengið? Stendur það sem hann sagði í viðræðum við mig á þinginu (Forseti hringir.) 2. mars í fyrra að málið verði ekki tekið fyrir Alþingi fyrr en að (Forseti hringir.) frá samningnum hafi verið gengið?