145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Margt hefur komið fram í umræðunni sem leiðréttir þann misskilning sem hv. þm. Ögmundur Jónasson byrjaði með í inngangi sínum og ég ætla ekki að fara sérstaklega yfir það. Ég held að ekki sé með neinu móti hægt að halda því fram að hæstv. utanríkisráðherra sé að reyna að halda einu eða neinu leyndu og hvet þá sem halda slíku fram til að fara inn á vef utanríkisráðuneytisins og skoða það sem þar er fjallað um TiSA-viðræðurnar. Ég held að það sé gott að við hugum aðeins að því og munum eftir því að við Íslendingar vorum einu sinni mjög fátæk þjóð. Um þarsíðustu aldamót vorum við fátækasta þjóðin í Vestur-Evrópu.

Reyndar erum við í EFTA-fríverslunarsamtökunum með Sviss, Noregi og Liechtenstein sem öll eiga það sameiginlegt að hafa verið mjög fátæk, jafn ólíkar þjóðir og þær eru. Staðreyndin er sú að við værum enn mjög fátæk þjóð ef við hefðum ekki aðgang að öðrum mörkuðum. Til þess að hafa jafnan rétt að öðrum mörkuðum verðum við til dæmis að geta vísað í gerðardóma. Það er enginn vafi að það er meiri hagur minni aðila að hafa aðgang að slíku en stærri aðila. Stór fyrirtæki fara sínu fram. Stóru aðilarnir fara sínu fram en litlu aðilarnir þurfa á því að halda að leikreglur séu jafnar og að þeir geti þá vísað málum eitthvað annað ef brotið er á þeim.

Ég held að ef við erum í alvöru að hugsa um að reyna að hjálpa fátækari ríkjum, ekki bara við hátíðleg tækifæri, þurfum við að opna okkar markaði. Það er staðreynd málsins. Ef við ætlum hins vegar að halda þeim þar sem þau eru skulum við loka þeim. Og þá skulum við ekki taka þátt í fríverslunarviðræðum, alveg sama hvaða nafni þær nefnast. Þá skulum við bara loka þessu. En þá skulum við heldur ekki segja: Við viljum að fátækari ríkin hafi það betra. Það er enginn vafi að besta leiðin til að hjálpa fátækari ríkjum er að ríkari ríkin (Forseti hringir.) opni markaði sína.