145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:39]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Það má kannski segja í framhaldi af ræðu hv. þingmanns á undan mér að við búum í heimi þar sem við erum með lokaða hringi. Ríku þjóðirnar hafa búið sér til samtök, hvort sem við köllum þau Schengen, Evrópusambandið, EFTA eða annað. Þjóðríki hafa bundist samtökum sem útiloka aðra. Það má alveg velta fyrir sér þegar við skoðum ójafnræði í heiminum, milli norðurs og suðurs, fátækra ríkja og ríkra, hvort hugmyndin um landamæri og þjóðríki eins og þau urðu til á 18. og 19. öld sé kannski orðin skrýtin í dag, sérstaklega miðað við viðskiptaumhverfi heimsins. Viðskipti eru orðin miklu alþjóðlegri, fjármagnsviðskipti fara fram með hraða rafeindarinnar á míkrósekúndum þvert yfir hnöttinn fram og til baka. Hættan er að stórir aðilar í viðskiptum öðlist mjög mikið vald og að litlar einingar eins og þjóðríki eigi í raun og veru erfitt með að verjast.

Smáríki eins og Ísland á mikið undir því að samningar og alþjóðlegar umgjarðir taki á svona málum. Það er mjög mikilvægt að land eins og Ísland sé ekki undirselt valdi hins sterka, hvort sem um er að ræða sterk ríki, sterk alþjóðafyrirtæki eða annað. Út frá þeirri hugsun finnst mér mikilvægt að Ísland taki þátt í þessum viðræðum, fylgist með þróuninni og taki þátt í niðurstöðunni (Forseti hringir.) en auðvitað ekki hvaða niðurstöðu sem er. Ísland verður líka að vinna í því að hún verði góð og almenningi heimsins til farsældar.