145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:42]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég held áfram lestri greinar Bergsveins Birgissonar, með leyfi forseta:

„Nú þegar hafa slík mál farið í gegn vegna annarra fríverslunarsamninga. Franska stórfyrirtækið Veolia fór í mál við Egyptaland af því að ríkisstjórnin lögfesti lágmarkslaun þegnanna. Sænska fyrirtækið Vattenfall fór í mál við Hamborg í Þýskalandi, sem ætlaði að reyna að minnka umsvif kolaorkuvers í bænum í nafni hreinna lofts. […] Hér eru ekki aðeins „verslunarhindranir“ fjarlægðar, heldur líka lög og reglugerðir sem vernda hagsmuni verkafólks og neytenda, og ekki síst hagsmuni allra jarðarbúa hvað varðar umhverfismál. […] Með TiSA-samningnum er stórfyrirtækjum gefið alræðisvald í nafni fríverslunar og „hagræðingar“. Samningurinn mun ná utan um 70% alþjóðamarkaðsins af allri þjónustu, allt frá fjármálum til heilbrigðismála. Á vef WikiLeaks má lesa að ákvæði um einkavæðingu eru óafturkallanleg, það þýðir að lönd geta ekki gert lykilþjónustu opinbera á ný, þótt þeir muni upplifa að allt versni þegar fjarlægt stórfyrirtæki fer að reka elliheimili eða leikskóla landsins.“

Ég minni á og bendi á framferði Rio Tinto gagnvart starfsmönnunum í álverinu, en það er bara forsmekkurinn að því sem koma skal hjá alþjóðastórfyrirtækjum. Þau koma inn með mjúkum höndum og ef þau fá ekki það sem þau vilja er öllu hótað eins og við höfum séð gerast hjá álverinu í Straumsvík.

Síðan skulum við halda því til haga að leyndarhyggjan, sem hefur verið í kringum þetta, er ekki eitthvert ofsóknaræði. Þingmönnum í Bandaríkjunum hefur verið hótað lögsókn ef þeir vilja veita aðgengi að til dæmis TPP. Þó er talið að sá samningur sé hjúpaður minni leyndarhjúpi en TiSA þannig að ég hvet þingmenn til að stíga varlega til jarðar og ekki gleypa hrátt það sem þeim er rétt.

Síðan er mjög mikilvægt að hafa í huga að við verðum að fá tækifæri til að greina tæknimállýskuna í þessu máli því að það er ekki fyrir nokkurn lifandi mann að skilja það tæknikraðak sem er í þessu.