145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

TiSA-samningurinn.

[11:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi tek ég undir að líklega þarf að verða hér umræða um þetta mál sem leyfir okkur betri tíma.

Í öðru lagi tek ég undir orð hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, ekki gleypa hrátt allt sem sagt er, þar á meðal hér í þessum sal af þeim sem tala gegn þessum samningum. Það er líka mikilvægt að hafa það í huga.

Samningurinn kallar ekki á neinar breytingar í opinberri þjónustu, hverju nafni sem hún nefnist. Hún er undanþegin almennt og til að vera með belti og axlabönd er sérstaklega tekið fram í tilboði Íslands að svo sé. Samningurinn felur ekki í sér neinar skuldbindingar um að einkavæða þjónustu. Það sem meira er, ríkið getur fært einkavædda þjónustu aftur í opinberan rekstur kjósi það svo. Engar reglur eru í GATT og verða ekki í TiSA um bótaskyldu ríkja ef þau kjósa að taka þjónustu á ný undir opinberan rekstur. Allar skuldbindingar eru afturkræfar.

TiSA mun innihalda ákvæði um úrlausn deilumála líkt og er hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni og hafa reynst smáríkjum mjög vel. Þar munu ríki takast á, ekki fyrirtæki. Samningurinn takmarkar ekki rétt löggjafans til að setja löggjöf á þeim sviðum sem samningurinn nær til. Það verður á valdi sérhvers ríkis að setja reglur um réttarstöðu erlendra þjónustuveitenda o.s.frv.

Ég ætla að svara nokkrum þeirra spurninga sem hafa komið fram. Ég kannast ekki við að Ísland hafi verið beðið um að fela einhverja hluti sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði um. Það er rangt sem kemur fram í þessum desemberumræðum, að við höfum beitt okkur fyrir því að ekki yrði hægt að greina á milli mismunandi tegunda af orku. Þau skjöl sem Wikileaks vísaði til í desember voru komin á vef ráðuneytisins í mars, þá mörgum mánuðum fyrr. Það sem við höfum lagt áherslu á er að íslenskir sérfræðingar á sviði orkurannsókna og orkuþjónustu geti veitt slíka þjónustu erlendis. Ekkert í því sem við erum að leggja til gengur út á að menn geti ekki greint á milli orku eða notað þá orku sem þeir kjósa. Það (Forseti hringir.) eru svo margar aðrar spurningar og vangaveltur sem þarf að svara í þessu máli þannig að ég er algjörlega sammála því að við þurfum að búa til vettvang til að ræða þetta betur einhvern tímann á næstu vikum.