145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[11:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þann 20. janúar kynnti UNICEF skýrslu sína sem ber yfirskriftina: Réttindi barna á Íslandi: Börn sem líða efnislegan skort. Skortgreining UNICEF leiðir í ljós að 9,1% allra barna á Íslandi liðu skort árið 2014. Það eru rúmlega 6.100 börn og af þeim líða tæp 1.600 verulegan skort. Ég leyfi mér að fullyrða að öllum sem á þessar umræður hlýða finnast þær niðurstöður óásættanlegar.

En hvað ætlum við að gera? Hvernig bregðumst við við þeim vondu tíðindum að fjöldi barna í þessari stöðu hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2009? Greining UNICEF er afar verðmætt tæki sem stjórnvöld geta notað til að átta sig á hvert helst á að beina stuðningi við fjölskyldur í landinu. Hún byggist á áherslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á jafnræði, þ.e. að öll börn eigi að njóta sömu réttinda og öll börn skipti máli. Aðferð UNICEF gengur út á að greina marghliða skort hjá börnum og gerir mögulegt að rannsaka skort út frá mörgum sviðum og ólíkum bakgrunnsbreytum. Horft er á börnin sjálf og aðstæður þeirra en ekki heimili þeirra í heild sinni. Góð greining á gögnum sem varpa ljósi á lífsgæði barna á Íslandi er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að vinna markvisst að því að jafnræði ríki meðal barna. UNICEF hefur bent á að segja megi að slíkar greiningar séu lykilþáttur að innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með farsælum hætti.

Greiningin er unnin í samstarfi við Hagstofuna sem framkvæmdi skortgreininguna og notaði til þess gögn sem þegar hafði verið safnað hér á landi. Gögnin koma úr viðauka við lífskjararannsókn Evrópusambandsins en hún er lögð fyrir heimili á Íslandi á hverju ári. Árin 2009 og 2014 var sérstökum viðauka bætt við þar sem upplýsingum um stöðu barna var safnað sérstaklega. Það gæfi betri vísbendingar um hvar stjórnvöld ættu að bera niður og hvernig ef þeim upplýsingum væri í framtíðinni safnað árlega. Mögulegt er að skoða gögnin með ýmsum hætti á netinu eftir ólíkum sviðum og bakgrunnsbreytum. Hægt er að velja hvernig þau birtast og hvað er borið saman. Þannig nýtast þau vel öllum þeim sem vilja kynna sér efnislegan skort barna á Íslandi.

Niðurstöðurnar segja, í stuttu máli, að mestar líkur séu á að barn líði skort á Íslandi ef það er drengur sem á foreldra sem eru yngri en 30 ára og þau eru einungis með grunnmenntun, í lægsta tekjubili og á leigumarkaði í stærri bæjum landsins, drengur sem er fæddur á Íslandi og er eina barnið á heimilinu og foreldrarnir eru í minna en 50% starfshlutfalli. Það svið sem flest börn líða skort er húsnæði. Tæplega 9.000 börn líða slíkan skort. Algengasta ástæðan er þröngbýli. Einnig að ekki komi næg dagsbirta inn um glugga húsnæðisins. Meira en fjórðungur barna sem eiga foreldra sem vinna hálft starf eða minna býr við skort á sviði húsnæðis. Sú niðurstaða bendir til þess að öryrkjar séu í þeim foreldrahópi og námsmenn. Það sama má segja um atvinnulausa og einstæða foreldra. Mikill munur er á börnum leigjenda og börnum foreldra í eigin húsnæði. Börn leigjenda eru líklegri til að líða skort á öllum sviðum. Skortur hefur verið á leiguhúsnæði og stuðningi við leigjendur í of langan tíma. Hærri húsaleigubætur ásamt umtalsverðri fjölgun leiguíbúða kæmi til móts við þann vanda barnanna. Ég minni á að talsmenn öryrkja og stúdenta hafa lýst áhyggjum sínum af því að kerfisbreytingar sem eru boðaðar í þessum efnum muni tefja uppbyggingu á húsnæði á þeirra vegum. Koma þarf í veg fyrir slíkar tafir. Greiningin á hag barna kallar á að uppbyggingunni verði flýtt.

Það svið á Íslandi þar sem börn líða næstmestan skort er félagslíf og þar á eftir er skortur sem tengist klæðnaði og afþreyingu algengastur. Ég tel að auk hærri húsaleigubóta og fleiri leiguíbúða ættu stjórnvöld að bregðast við með hærri barnabótum og breytingu á fæðingarorlofi. Ég held að ef barnabætur væru greiddar út mánaðarlega nýttust þær betur börnum hvað varðar félagslíf, þátttöku í frístundastarfi og betri klæðnaði. Nú eru barnabætur greiddar út á þriggja mánaða fresti og slíkir slumpar inn í efnahag heimila eru oft notaðir með öðrum hætti en mánaðarleg innkoma. Einnig er nauðsynlegt að endurskoða almannatryggingar þannig að börn öryrkja séu ekki líklegri en önnur til að líða skort. Sama má segja um upphæð námslána og stuðning við atvinnulausa.

Eftir þessa örstuttu yfirferð afar mikilvægrar greiningar UNICEF á aðstæðum barna sem líða efnislegan skort vil ég biðja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um viðbrögð við niðurstöðunum og spyrja um leið hvernig hún hyggst bregðast við niðurstöðunum í velferðarráðuneytinu (Forseti hringir.) annars vegar og í ríkisstjórn hins vegar.