145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:03]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga en afskaplega dapurlega máli.

Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi. Þó að víða í heiminum þurfi börn að þola enn meiri fátækt og mismunun en hér á landi er það hreint engin afsökun fyrir okkur. Okkar er ábyrgðin, okkar er skömmin og okkar er skyldan að bregðast ekki þessum börnum. Bernska þeirra er hér og nú og ef við neitum þeim um að fá að njóta hennar vegna fátæktar og fárra tækifæra getum við ekki bætt fyrir það síðar.

Þessi mál má alls ekki þvæla og flækja og setja svo neðst í bunkann. Við eigum að forgangsraða í þágu barna og alveg sérstaklega barna sem standa höllum fæti. Til þess og einskis annars var barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna gerður og til þess skrifuðum við undir hann og fullgiltum og gerðum hann svo að íslenskum lögum.

Í skýrslunni kemur fram að hlutfall þeirra barna sem líða skort á Íslandi hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2009. Gera má ráð fyrir að rúmlega 6.100 börn líði efnislegan skort hér á landi og af þeim þola tæplega 1.600 börn verulegan skort. Hlutfall barna sem líða verulegan skort hefur þrefaldast frá árinu 2009 og er nú 2,4%.

Herra forseti. Á bak við allar þessar tölur eru börn af holdi og blóði, með tilfinningar, væntingar og metnað og löngun til að fá tækifæri í lífinu og verða hamingjusamt fólk. Er það ásættanlegt í velmegunarsamfélaginu okkar að meira en 6.000 börn skuli lifa við skort á efnislegum gæðum og þola alvarlega mismunun? Nei. Það er okkur til skammar að hér á landi skuli vera börn sem fara ekki aðeins á mis við tækifæri sem félagar þeirra fá og finnst sjálfsögð til að stunda félagslíf og íþróttir, læra á hljóðfæri, fara í ferðalög, þroskast og njóta lífsins, heldur börn sem vegna fátæktar fá ekki viðunandi næringu, búa í vondu og óöruggu húsnæði og klæðast lélegum fötum.

Herra forseti. Auðvitað er þetta til háborinnar skammar. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)