145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

niðurstöður greiningar UNICEF á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim.

[12:12]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, og niðurstöður greiningar á hag barna og viðbrögð stjórnvalda við þeim niðurstöðum. Sannarlega er það gagnleg skýrsla þó að niðurstaðan sé í eðli sínu dapurleg. Það er mikilvægt að taka hana fyrir hér og ég þakka sérstaklega hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, málshefjanda, fyrir að taka þetta fyrir.

Mér finnst 6.100 börn sannarlega sláandi tala og að það skuli eiga sér stað að 1.600 börn líði verulegan efnislegan skort er algjörlega óásættanlegt. Við eigum ekki að sætta okkur við þessa stöðu. Ég hef áður í ræðu vitnað til orða sr. Bjarna Karlssonar sem hefur rannsakað, rætt og ritað um fátækt. Hann segir að stjórnvaldsaðgerðir dugi ekki til einar og sér, hér þurfi viðhorfsbreytingu, ekki ólíkt og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir orðaði það hér áðan, við eigum að horfa á stöðuna eins og hún er og bregðast við henni. Umfangið liggur fyrir, börnin eru alltaf fórnarlömb þessara aðstæðna.

Varðandi hvað það er sem skortir og hvaða þættir hafa helst áhrif og hvaða hópar það eru sem helst líða skort þá mun heimilisgerð, atvinnuþátttaka, menntun og húsnæðisstaða alltaf skipta máli. Við vitum líka að það getur oft verið flókið orsakasamhengi á bak við fátækt. Ég held að það blasi við að það þurfi viðbragðsáætlun þar sem fram kemur hvar við getum með beinum hætti gripið til aðgerða.