145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í umræðu um þetta mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hefur mælt fyrir. Þar er annars vegar mælt fyrir um að ráðherra skuli gefa út leiðbeiningar til sveitarstjórna, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, um hvernig skuli framkvæma fjárhagsaðstoð auk viðmiðunarfjárhæða fyrir fjárhagsaðstoð. En hins vegar er kveðið á um það sem kallað er skilyrði fyrir veitingu fjárhagsaðstoðar, þ.e. að sveitarstjórn sé heimilt að setja í reglur um veitingu fjárhagsaðstoðar skilyrði um að umsækjandi, sem er vinnufær að hluta eða öllu leyti, sé í virkri atvinnuleit. Síðan er farið yfir það í frumvarpinu hver skilyrðin eigi að vera.

Málið lætur kannski ekki mikið yfir sér, herra forseti, en eigi að síður er það svo að það varðar það sem við getum kallað grundvallarstoð í velferðarkerfi okkar hér á landi. Fyrr á öldum var það síðasta úrræðið að menn segðu sig til sveitar. Þegar börn misstu foreldra sína var þeim oft dreift á fjölskyldur. Þau voru sett á sveit. Það var síðasta úrræðið til að koma fólki fyrir, hvort sem það voru börn eða fullorðnir. Enn er það svo í samfélagi okkar þó að við tölum um þetta með öðrum hætti núna. Þó að nú sé rætt um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga þá er það síðasta úrræðið.

Fyrir þá sem hafa verið á atvinnuleysisbótum, það tímabil hefur verið stytt núna, þá blasir stundum við ekki annar veruleiki en að leita ásjár sveitarfélaga. Hér er væntanlega um að ræða fátækasta fólkið í samfélaginu, fólk sem þarf að leita eftir slíkri aðstoð. Og hluti þessa fátæka fólks var til umræðu fyrr í dag í sérstakri umræðu um skýrslu UNICEF um skort íslenskra barna og við höfum merki um að hann sé að aukast, sem er áhyggjuefni. Á sama tíma og við sjáum merki um að skortur barna, eins og hann er mældur, sé að aukast er það umhugsunarefni að hér sé lagt til að sett verði sérstök skilyrði fyrir veitingu fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga.

Nú þekki ég vel söguna á bak við það og veit að sveitarfélögin hafa þrýst á um að fá slíka lagaheimild fyrir slíkum skilyrðum. Sveitarfélögin hafa sum hver bent á að það sé eina leiðin og hafa rökstutt þá beiðni með því að það sé eina ráðið til þess að ýta við fólki, virkja fólk og að það standi sig í því að leita sér að vinnu. En mér er það satt að segja til efs. Nú þekki ég það ekki og væntanlega mun hv. velferðarnefnd fara yfir það, en ég átti þess kost að sitja nokkra fundi í hv. velferðarnefnd á síðasta þingi þar sem þetta mál, sem einnig var flutt þá, var til umræðu. Þá var spurt sérstaklega eftir því hvort við hefðum skýra reynslu erlendis frá til dæmis um það hvort virkni fólks ykist við að slík skilyrði yrðu sett fyrir fjárhagsaðstoð. Þetta hefur verið gert annars staðar en hér á landi, þ.e. að setja slík skilyrði. Á þeim tímapunkti — ég sé það ekki í greinargerð frumvarpsins að vitnað sé til neinna erlendra rannsókna um þetta mál — spurði ég sérstaklega eftir því hver reynslan væri til dæmis frá Noregi sem hefur verið að setja inn slíkar skilyrðingar. Svörin voru í raun og veru þau að slík skilyrði ykju kannski ekki endilega virkni nema í afmörkuðum hópum. Þetta fannst mér áhugavert og mér finnst mikilvægt að hv. velferðarnefnd skoði það, þ.e. að skilyrðin virki þá kannski sérstaklega á tiltekna aldurshópa, og var þá sérstaklega vitnað til yngri aldurshópanna ef ég man rétt, að virkni þeirra ykist, en virki ekki endilega á eldri hópana.

Ég velti einu fyrir mér og sú spurning er áleitin og er eitthvað sem nefndin getur kannski skoðað sérstaklega. Mundu þeir hópar sem verða virkari í kjölfar einhverra slíkra skilyrðinga, hefðu þeir orðið jafn virkir ef hreinlega hefði verið unnið að því að bjóða þeim upp á úrræði, virkniúrræði?

Við þekkjum þá reynslu til dæmis frá hruni þegar ráðist var í átak með framhaldsskólum landsins og Vinnumálastofnun, þar sem farið var í það átak að bjóða ungu fólki nám við hæfi. Það sýndi sig að þegar ungu fólki bauðst náms- eða menntunarúrræði við hæfi þá vildi það sækja í slíkt úrræði, og þegar slíkum úrræðum fylgdi stuðningur og hvatning þá lauk það fólk námi vegna þess að úrræðin voru sérhugsuð. Það var ekki bara boðið upp á að mæta á fyrsta degi í framhaldsskóla í óskilgreint nám innan um miklu yngra fólk svo dæmi sé tekið, heldur var hugsunin á bak við það að sú menntun sem var í boði væri í hópi fólks á svipuðum aldri, að hún væri á áhugasviði viðkomandi og henni fylgdi ákveðinn aukalegur stuðningur sem þarf kannski í tilfelli þeirra sem hafa misst vinnuna eða hafa verið lengi utan vinnumarkaðar, eru ekki með formlega menntun og þurfa aukastuðning til þess að fara aftur inn í skólakerfi sem kannski hefur ekki átt við viðkomandi á fyrri stigum.

Spurningin sem ég varpa fram, af því að ég held að allir hér inni hljóti að vera sammála um að mikilvægt sé að fólk detti ekki í doða og missi lífskraft og lífsvilja, er hvort skilyrðingar séu rétta leiðin til þess að hvetja fólk til dáða í þeim efnum eða hvort mestu skipti hreinlega að úrræðin séu til staðar.

Ég veit auðvitað að fjöldi úrræða hefur verið í boði. Ég nefndi Vinnumálastofnun áðan sem kom inn með sína miklu reynslu og þekkingu þegar við fórum í það menntaátak sem hét Nám er vinnandi vegur og var í raun og veru mikil gleðisaga fyrir marga þá sem tóku þátt í því og sýndi líka skilning verkalýðshreyfingarinnar og aðila vinnumarkaðarins á því hversu mikilvægt er að halda fólki aktífu.

Þetta þyrfti að skoða að mínu viti, þ.e. annars vegar hvernig skilyrðingar hafa gefist annars staðar, hvort vegur þyngra framboð á tækifærum fyrir þá sem eru í þeirri stöðu að þurfa að leita sér fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna, eða hvort að skilyrðingarnar virki ekki bara á tiltekna hópa. Á þeim fundum sem ég sat í fyrra var sérstaklega talað um að þetta hefði alls ekki haft áhrif á alla hópa.

Í ljósi þess, herra forseti, að þetta er síðasta öryggisnetið sem um er að ræða, þ.e. að fólk leiti fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, það er svona síðasta úrræðið í því að geta lifað af, þá er maður í raun og veru að segja sig á sveit. Hvað gerist þá ef sú aðstoð er skert? Þá leitar það fólk ekki mikið annað. Mér finnst það vera umhugsunarefni hvað þetta segir okkur um hvert við erum á leið með velferðarkerfi okkar ef öll aðstoð hins opinbera er þá orðin í raun og veru skilyrt. Þetta samrýmist auðvitað ekki þeim hugmyndum sem eru annars staðar í gangi í heiminum um eina ríkisgrunnframfærslu eins og er verið að leiða til dæmis í Finnlandi núna, þar sem talað er um svokölluð borgaralaun eða grunnframfærslu fyrir alla borgara óháð því hver staða þeirra sé. Þetta er því einhver allt önnur hugsun sem hér er í gangi.

Ég hef talið fulla ástæðu til að skoða hugmyndir um grunnframfærslu. En hins vegar tel ég ekki ástæðu til þess, eins og þetta virðist vera útfært í Finnlandi, þar sem sparnaður virðist eiginlega vera markmiðið. Það tel ég ekki rétta markmiðið. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að eiga samtal við hæstv. ráðherra. Hún kemur þá bara upp í andsvar ef hún vill eiga frekara samtal um þetta. En þetta er áhugaverð hugmyndafræði, tel ég. En mér sýnist hins vegar því miður finnska leiðin vera sú að nýta þessa áhugaverðu hugmyndafræði til að spara í félagslega kerfinu. Það finnst mér ekki endilega vera til eftirbreytni.

Hitt sem mig langar að segja, og það er eiginlega síðari punkturinn sem mig langar að koma hér að, er að hér eru gefnar út leiðbeiningar af hálfu ráðherra um framkvæmd fjárhagsaðstoðar og viðmiðunarfjárhæðir. Það þýðir að sveitarfélögin eru í raun og veru áfram, eins og ég skil frumvarpið, ekki skuldbundin til að veita slíka viðbótarfjárhagsaðstoð eða fjárhagsaðstoð. Viðmiðunarfjárhæðir eru gefnar út en sveitarfélögin eru ekki skuldbundin til að fylgja þeim. Þetta er eitt af því sem margoft hefur verið rætt, þ.e. upphæð fjárhagsaðstoðar, sem er ekki samræmd í dag og hér er stigið skref til að gefa út ákveðin viðmið, en eins og ég skil málið er ekki verið að skuldbinda sveitarfélögin til þess að fylgja þeim viðmiðum. Í rauninni liggur þetta val hjá sveitarfélögunum. Þar er væntanlega átt við sjálfstæði sveitarfélaga sem er tryggt í stjórnarskrá og væntanlega vísa sveitarfélögin til þess.

En ég spyr samt í ljós þess að hér er þá verið að setja annars vegar tillögu um að sveitarfélögin fái heimild til að skilyrða aðstoðina og hins vegar ákveðin viðmið, hvort ekki hefði verið eðlilegra að ganga hreinlega lengra og tryggja þannig ákveðið jafnræði á milli ólíkra sveitarfélaga landshorna á milli því að ekki er þetta nú stórt land sem hér er undir.

Ég velti því fyrir mér hvort Samband sveitarfélaga hefði ekki verið reiðubúið til að gangast inn á það að sett væru meira afgerandi viðmið þannig að þetta væri samræmt yfir landið allt. Því að óháð þeim sjónarmiðum sem ég ber að sjálfsögðu virðingu fyrir, um sjálfstæði sveitarfélaga, þá megum við heldur ekki gleyma því að við hljótum líka að vilja tryggja einhver grunnréttindi allra einstaklinga í þessu landi, óháð því hvar þeir eiga heima.

Með því að skuldbinda þetta ekki erum við væntanlega ekki að ná því markmiði gagnvart öllum sveitarfélögunum. Það finnst mér vera áhyggjuefni. Ég hefði talið það eðlilegra og sagði það reyndar líka hérna í fyrra þegar við ræddum þetta mál að ég hefði viljað sjá samræminguna ganga alla leið í upphæð og viðmiðunum fjárhagsaðstoðar. Síðan tel ég að við þyrftum miklu ítarlegri pólitíska umræðu og við eigum væntanlega eftir að eiga hana á þessu þingi um hvernig við viljum tryggja að þeir sem þurfa á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga að halda verði áfram virkir borgarar í lýðræðissamfélagi. Ég hef mjög mikla trú á jákvæðri hvatningu. Ég hef mjög mikla trú á því að menntun, viðbótarþekking og reynsla sé eitthvað sem nýtist fólki á öllum aldri. Sé það gert með jákvæðum hætti muni það skila jákvæðum árangri.

En, herra forseti, ég vil hins vegar segja að ég hef miklar efasemdir um að setja inn skilyrðingar á þetta síðasta úrræði samfélagsins þegar kemur að því að horfa til þeirra hópa sem leita fjárhagsaðstoðar. Ég hef miklar efasemdir um að veita sveitarfélögum þá heimild að setja skilyrði við veitingu slíkrar fjárhagsaðstoðar því að ég get ekki svarað spurningunni hvað tekur þá við fyrir það fólk. Ég get ekki svarað spurningunni hvað tekur við fyrir þá sem lenda í því að missa þá aðstoð.

En ég treysti því að þetta verði skoðað vel í hv. velferðarnefnd og skoðað málefnalega og opið þannig að við fáum ákveðin svör að minnsta kosti við þessum spurningum.