145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:14]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og málefnalega ræðu um þetta flókna verkefni. Ég hef verið að vonast eftir því að umræðan, og líka í nefndinni sjálfri, þróaðist frá því að við værum að ræða hvort við ættum að setja skýrar reglur og færi frekar að snúast um það hvernig reglurnar ættu að vera. Þar hef ég opnað á það að ræða hvort breyta þyrfti þeim tillögum sem liggja fyrir í frumvarpinu eða lagfæra þær.

Þar sem hv. þingmaður er fyrrverandi menntamálaráðherra kannast hún ágætlega við túlkasjóðinn. Ekki fyrir löngu féll dómur sem sneri að honum; fór að vísu ekki upp í Hæstarétt en héraðsdómur benti á kröfuna sem stjórnarskráin gerir — sem snýr að réttindum fólks til aðgangs að þeirri þjónustu sem túlkasjóðurinn býður upp á — um að stjórnvöld setji skýrar reglur um það hvernig úthluta eigi fjármunum og hvernig fara eigi með þá takmörkuðu fjármuni sem við höfum til að sinna þeim verkefnum sem við höfum ákveðið og teljum rétt að sinna.

Ég hefði áhuga á að heyra hvernig hv. þingmaður mundi vilja sjá útfærsluna. Er eitthvað í frumvarpinu sem hún teldi ástæðu til að breyta? Hinir ágætu fulltrúar hennar sem sitja í velferðarnefnd gætu þá tekið það sérstaklega til skoðunar. Ég spyr líka hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að hv. þingmaður hafi ekki verið að taka undir tillöguna, eins og hún hefur verið orðuð hér, um að skoða borgaralaun þar sem samhliða bótakerfi eru aflögð. Ég tel mjög mikilvægt að hafa það í huga. Menn hafa talað um að það mundi spara mikla fjármuni en sem dæmi þá erum við að borga um 100 milljarða í bætur frá Tryggingastofnun en kostnaður við Tryggingastofnun er 1 milljarður. Það væri ekki mikill sparnaður (Forseti hringir.) þannig séð ef við ætluðum sem sagt að afleggja 100 milljarða í bótagreiðslur en spara á móti 1 milljarð í umsýslu sem þykir nú vera mjög lágt.