145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er sammála hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt að hafa yfirsýn yfir þetta. Auðvitað hafa sveitarfélögin sögulega séð séð um mikilvæga þætti velferðarþjónustunnar. Fleiri verkefni hafa verið færð til sveitarfélaganna. Þess þá heldur er mikilvægt að við höfum yfirsýn, að við höfum upplýsingar um hvernig þessari þjónustu er háttað, hvar ósamræmið liggur. Eins og ég sagði hér skýrt áðan þá er ég talsmaður samræmis í þessum efnum því að mér finnst það snúa að grunnréttindum borgaranna að þeir geti valið sér búsetu og búið við sömu grunnréttindi.

Hæstv. ráðherra nefndi hér að mörg sveitarfélög hefðu sett sér reglur án þess að lagaheimild væri endilega til staðar og við þekkjum þau dæmi. En það sem skiptir þá máli, ef reglur eiga að vera á annað borð, sem ég er mjög efins um, eins og ég hef sagt, er að svigrúmið sé í ívilnandi átt. Oft geta aðstæður verið þannig að erfitt er að fella þær undir skilyrði sem sett eru í lögum eða reglum ríkis og sveitarfélaga.

Þegar maður sér aðstæður sem kannski eru ófyrirsjáanlega í augum þeirra sem semja lögin og reglurnar en eru samt þannig að viðkomandi þarf á aðstoð að halda sama hvað manni finnst, þá þarf að vera mjög skýrt svigrúm til að við túlkum reglurnar með ívilnandi hætti í garð þeirra sem minnst mega sín. Það er eiginlega það sem mér finnst svo mikilvægt.

Hér erum við fyrst og fremst að horfa á hver geti orðið skilyrðin fyrir því að fá fjárhagsaðstoðina, en það er kannski erfitt að skrifa það í lög að við eigum síðan að túlka þau skilyrði á þann veg að mannúðin sé höfð að leiðarljósi þegar mál eru tekin til afgreiðslu. Svo þarf líka að tryggja og hafa samræmi, eða að minnsta kosti yfirsýn, yfir það hvaða virkniúrræði eru í boði. Hér er talað sérstaklega um atvinnuleit og vinnumarkaðsaðgerðir og námsúrræði, það er mjög mismunandi milli sveitarfélaga, þannig að þar skiptir líka máli að hafa yfirsýn yfir það hvað er í boði.