145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn á þetta frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, þ.e. skerðingu á fjárhagsaðstoð, sem við töluðum svolítið um þegar málið var lagt fram á síðasta þingi og höfum haft miklar efasemdir um. Þær hafa ekki minnkað neitt sérstaklega þrátt fyrir að frumvarpið sé lagt aftur fram, það er nokkurn veginn óbreytt, örlitlar skýringar bætast við og reynt að skerpa á einhverju í 2. gr., en að öðru leyti er innihaldið óbreytt.

Í ljósi þess sem við vorum að ræða áðan þá er vert að rifja upp að við höfum fullgilt nokkra alþjóðasáttmála eins og við höfum rætt undanfarið, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmálann, og félagssáttmála Evrópu, svo einhverjir séu nefndir. Í þeim öllum er gert ráð fyrir að þjóðir tryggi íbúum sínum öryggi og velferð. Þegar við horfum til þess að hér eigi að skerða hjá þeim sem verst standa þá finnst mér ekki að við séum að gera það að öllu leyti með þessu frumvarpi.

Það eru nokkrar skýrslur sem liggja að baki því, m.a. sú sem var rædd hér fyrr í dag, UNICEF-skýrslan, og Rauðakrossskýrslan frá 2010 þar sem talað er um atvinnuleitendur. Hvort sem það eru hjón með börn, einstæðir foreldrar, innflytjendur og börn og öryrkjar eða ungt fólk þá kemur fram að það vanti tækifæri. Það eru áberandi illa staddir hópar þarna inni sem voru þar ekki fyrir hrun en sumir standa enn höllum fæti. Það eru kannski fyrst og fremst þeir sem þiggja þessa fjárhagsaðstoð og jafnvel er svo komið hjá þeim að þurfa að treysta einvörðungu á hana. Okkur hættir til að líta á þennan hóp sem vandamál í staðinn fyrir að horfa til þessa fólks með það fyrir augum að hjálpa því á fætur. Vissulega er það lagt til í frumvarpinu að hluta, en kannski með öðrum formerkjum en ég hefði kosið.

Ég held að við séum öll sammála um að það er stór hluti af okkur sem einstaklingum að hafa atvinnu, það snýst ekki bara um að hafa laun eða geta framfleytt sér, heldur hefur það áhrif á sjálfsmyndina, getur líka haft áhrif á heilsufarið og auðvitað hefur það áhrif á alla í kringum okkur, þ.e. í fjölskyldunni. Ég held að við getum líka öll verið sammála um að það eru afar þung spor sem þarf að stíga þegar fólk þarf að leita á náðir sveitarfélaga, hvort sem það eru atvinnuleysisbætur eða sérstök fjárhagsaðstoð, sem eru einhvern veginn lokaskrefin í því að maður getur ekki framfleytt sér með nokkru móti.

Síðast þegar málið var rætt þá gerði hv. þm. Pétur H. Blöndal að umtalsefni hvort þessi lögfesting gæti orðið til þess að viðmiðunarfjárhæðin yrði hámarksfjárhæðin. Það spunnust nokkrar umræður um það og í rauninni er ekkert sem tryggir að svo verði ekki. Svo er hún auðvitað mismunandi hjá sveitarfélögunum og hefur verið þannig. Auðvitað hefur maður tilhneigingu til þess að ætla að sú geti orðið raunin. Eins og við vitum er fjárhagsaðstoðin alla jafna frekar lág og við höfum líka tekist á um hvort hún eigi að vera lægri en tilteknar aðrar bætur eða laun. Það voru skiptar skoðanir um það.

Við erum að tala hér um fólk með bág kjör og eins og við vitum er gert ráð fyrir því í 2. gr. frumvarpsins að fólk fylgi stífum ramma, fái einstaklingsleiðsögn, því sé fylgt eftir o.s.frv., en samt með þeim neikvæðu formerkjum að ef það gerir það ekki þá skuli skerða fjárhagsaðstoðina. Ég held mig enn við það að hægt sé að framkvæma þessa hluti án skerðingar og í rauninni er ekkert sem mælir gegn því að það sé gert þannig að þetta virki hvetjandi á fólk en ekki letjandi. Þegar fólk neyðist til þess að þiggja slík úrræði þá er í raun verið að neyða það inn í tiltekið ferli sem það er ekki tilbúið til að takast á við. Leiðin ætti kannski miklu frekar að vera sú að við mundum koma til móts við fólk og umbuna því hreinlega ef það tæki þátt í endurhæfingu eða námskeiðum eða einhverju slíku. Það eru að minnsta kosti jákvæð formerki og er ekki síður líklegra í einhvern tiltekinn tíma til að koma fólki af stað og til þátttöku á atvinnumarkaði aftur.

Í sjálfu sér er ég alveg sammála því markmiði frumvarpsins að við þurfum að aðstoða fólk til þess að komast til vinnu og virkni aftur, en mér finnst að við þurfum að skoða hvaða leiðir við viljum fara. Auðvitað erum við hér að gera það, að skiptast á skoðunum um það hvaða leiðir við viljum fara, en mér finnst að þær verði fyrst og fremst að vera sanngjarnar fyrir þann sem þarf að standa frammi fyrir þessari ömurlegu stöðu í lífinu.

Í frumvarpinu er farið inn á vinnufærnimat og eitt af því sem maður hefur velt töluvert fyrir sér er þegar vinnufærni fólks er metin. Auðvitað erum við að haka í einhver box og allt það, en svo erum við líka með fólk sem er bara erfitt að meta hvort sé vinnufært eða ekki. Það er neytt til að fara á tiltekin námskeið, annars missi það bætur o.s.frv. En við þekkjum örugglega öll einstaklinga í kringum okkur sem eru með hindranir í lífi sínu sem þeir bera ekki endilega utan á sér. Jafnvel þó að maður sé að tala við það fólk eða eitthvað slíkt, þá áttar maður sig ekki á því að það á við að etja einhver annars konar vandamál. Við getum auðvitað tekið geðrænu vandamálin í því samhengi. Ég átti þess kost að hlusta á unga konu með heilaskaða í gær og það sást ekkert utan á henni að eitthvað væri ekki í lagi, en það kom fram í máli hennar að það er yfirleitt lítið sem tekur við í núverandi kerfi, hvort sem það er eftir heilbrigðisþjónustuna eða hjá félagsþjónustunni. Það er víða pottur brotinn. Það sem ég er að segja fyrst og fremst er að það getur verið mjög vandasamt að meta fólk og halda því fram að það sé fært um að taka þátt á vinnumarkaðnum. Síðan er það sem ég hef sagt áður að vinnumarkaðurinn er ekki endilega tilbúinn til að taka við fólki sem er með skerta starfsgetu að einhverju leyti.

Það er ekki bara það að fólk eigi erfitt með að koma sér út á vinnumarkað. Ég man eftir því þegar þetta mál kom hér til umfjöllunar síðast að ég fékk símtal, símtöl reyndar og bæði þessi símtöl voru frá konum á besta aldri sem höfðu misst vinnuna. Þær vildu báðar svo sannarlega vinna, en það var eiginlega bara þannig að það var horft á kennitölurnar þeirra og þær fengu ekki vinnu, svo merkilegt sem það er, konur með ágætisstarfsreynslu og komnar á miðjan aldur þóttu ekki eftirsóknarverður vinnukraftur og þær leituðu ekki bara fyrir sér á sínu sviði heldur víða. Þannig að fólk stendur frammi fyrir ýmsu. Ástæðan er ekki bara einhver tregða við að fara út á vinnumarkaðinn.

Hér hefur mikið verið talað um Hafnarfjörð og verkefnið þar. Ég hef ekkert endilega verið sammála því. Það var talað um að brottfallsástæður hefðu ekki verið greindar. Ég veit ekki betur en velferðarnefnd hafi kallað eftir upplýsingum um hvernig fólki hefði reitt af þar sem þessum skilyrðum hefur almennt verið beitt. Mér skildist að formleg svör hefðu ekki borist til nefndarinnar um það. Maður hefði nú talið að það væri ástæða til að skoða þetta áður en málið væri lagt fram aftur.

Ég vil líka koma inn á sama efni og verið var að ræða áðan, bæði hæstv. ráðherra og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir komu inn á það, þ.e. börn sem búa við óviðunandi aðstæður. UNICEF-skýrslan gefur tilefni til þess að hafa áhyggjur af því og Barnaheill gaf líka út skýrslu um ójöfnuð barna í fyrra, minnir mig. Þar er það auðvitað húsnæðiskostnaðurinn stór þáttur eins og við þekkjum, hátt hlutfall af tekjum þeirra sem lítið hafa fara í þann kostnað. Það er kannski helsti þáttur barnafátæktar, þótt í frumvarpinu sé sagt að ekki sé hægt að skilyrða heimildargreiðslur vegna aðstæðna barna, lág framfærsla foreldra eða foreldris sem stendur í þessum sporum hefur eðli málsins samkvæmt áhrif á börn. Þó að aðstoð vegna tómstunda eða skólamáltíða sé ekki skert þá er mjög margt annað skert og börnin þurfa þá að alast upp við það. Við vitum líka og það er kannski eitt af því sem við þurfum að horfast í augu við að ójöfnuður er ekki bara orsakavaldur fátæktar, heldur líka afleiðing. Við vitum að fátækt getur flust á milli kynslóða. Mér finnst að við þurfum að hugleiða þetta mun betur og horfa lengra fram í tímann en mér finnst gert í frumvarpinu.

Varðandi kostnaðarmatið sem fylgir frumvarpinu vísaði ráðherra í að kallað hefði verið eftir gögnum frá sveitarfélögunum. Ég skil þetta þannig að hér sé um að ræða heimildarákvæði og það er ekkert endilega vitað hvort öll sveitarfélög muni festa þetta í reglum sínum um fjárhagsaðstoð. Þá fer maður líka að hugsa: Erum við þá að tala um að við ætlum að bjóða upp á ólík félagsleg réttindi miðað við búsetu? Ætlum við að lögfesta að það sé þannig, ef það er rétt hjá hv. þingmanni sem hér segir að svo sé? Við erum þá að lögfesta slíka mismunun í staðinn fyrir að reyna einmitt að lagfæra það og festa í sessi að aldrei megi bjóða slakari aðstoð eða þjónustu en eitthvað ákveðið. Mér hefði fundist það skynsamlegra frekar en að viðhalda mismunun hjá sveitarfélögum.

Tími minn er að verða búinn og ég vil að lokum segja að við þurfum að fara ofan í þessi gildi, þ.e. hvaða hagsmuni við eigum að hafa að leiðarljósi og hvernig samfélag við viljum búa í. Við viljum auðvitað flest að allir búi við sæmilega mannsæmandi kjör. Ég las það einhvers staðar að komast mætti að réttlátustu lausn málanna með því að hver og einn setti sig í spor allra sem hlut ættu að máli, með því að ímynda sér að við gætum sjálf lent í erfiðri aðstöðu og átt á hættu að verða undir. Það gæti frekar leitt til þess að við kæmumst að réttlátari niðurstöðu við lausn mála. Ekki er ég nú fædd með gullskeið í munni, en ég hef heldur aldrei þurft að búa við fátækt. Þegar maður þekkir fólk sem hefur búið við slíkt og veit hvernig það kemur niður á fólki, þá get ég ekki annað en sagt að við séum að höggva í þann knérunn sem mér finnst að við ættum síst að gera, þ.e. fátækasta fólkið. Mér finnst nálgunin í frumvarpinu ekki vera til þess fallin að bæta úr því.

Ég vil spyrja ráðherra hvort hún telji ekki mögulegt að það geti orðið árangur af því ef viðkomandi sem er að detta út af atvinnuleysisbótum skráir sig hjá félagsþjónustunni, af því að maður þarf jú að hafa það nokkuð skítt til þess að sækja þjónustu hjá félagsþjónustunni, honum er boðið upp á viðtöl og meðferð og allt það sem fram kemur í frumvarpinu, en að undanskildu því að bætur hans verði skertar ef hann þiggur það ekki.

Herra forseti. Ég ætla að láta þetta duga í bili. Ég er ekki sannfærð um þetta mál og innihald þess og get ekki fellt mig við það að sveitarfélögin bjóði upp á skerta félagslega þjónustu.