145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Af því að hún nefndi framkvæmdina annars staðar á Norðurlöndum þá er stiklað á ákveðnum þáttum í nefndarálitinu hvað það varðar. En það er líka svo að einhver sveitarfélög hafa dregið úr og farið til baka vegna þess að ekki hefur gengið sem skyldi. Mér þykir mikilvægt að vita hvernig því fólki hefur reitt af sem verið hefur hjá þeim sveitarfélögum sem beitt hafa þeim skilyrðum sem við höfum aðeins rætt hér. Þau gögn finnst mér vanta inn í umræðuna þannig að við getum beinlínis spurt: Nú er búið að gera þetta í nokkur ár á einhverjum tilteknum stöðum. Hvar er þetta fólk í dag? Hvernig hefur því reitt af? Mér finnst það mjög mikilvægt.

Við erum sífellt að færa verkefni yfir til sveitarfélaganna vegna þess að við teljum þau betur í stakk búin til þess að sinna nærþjónustu. Þau þekkja frekar fólkið sitt og eru kannski í nánari tengslum við það. Ég skil að þetta sé íþyngjandi kostnaður fyrir sveitarfélögin. Gert er ráð fyrir að þessi leið létti fólki lífið. Ég sagði það síðast þegar þetta mál var rætt hér að ég héldi að þetta hefði verið mótleikur af því að atvinnuleysistryggingamálið fór hér í gegn eins og við munum, þ.e. þegar atvinnuleysisbæturnar voru takmarkaðar og skertar, að þetta væri einhvers konar björgunarhringur til sveitarfélaganna til þess að reyna að koma til móts við fólk. En auðvitað eru sveitarfélög misvel í stakk búin til að takast á við það. Við erum alltaf að ræða um tekjuskiptingu sveitarfélaga og ríkis. Ég mundi frekar vilja horfa eitthvað í þá áttina en að færa verkefnin beinlínis til ríkisins því að ég held að nærsamfélagið sé færara um að taka utan um einstaklinginn og þjónustuna sem viðkomandi þarf á að halda, af því að hún er jú mjög margvísleg. Hún er ekki bara í formi peningaaðstoðar og í gegnum fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.