145. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2016.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

458. mál
[14:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og bent hefur verið á hér mun Jöfnunarsjóður sveitarfélaga væntanlega koma til móts við kostnaðinn sem til fellur, en það er líka mikilvægt að framkvæmdin og þjónustan hjá sveitarfélögunum sé samræmd. Það á við á öllum sviðum vegna þess að það er ekki þannig að fólk geti bara tekið sig upp og flutt í nýtt sveitarfélag sisvona af því að þjónustan í einhverju sveitarfélagi sé svo miklu verri en annars staðar. Mér finnst því mikilvægt að við séum alltaf að reyna að samræma þjónustuna.

Hv. þingmaður kom líka inn á mál sem er mjög áhugavert, þ.e. hvort vinnumarkaður sé tilbúinn til að taka við fólki með skerta starfsgetu. Það finnst mér mjög áleitin spurning. Það er rétt sem fram kemur að nú liggur við að konur yfir fimmtugu eða sextugu séu útrunnar á vinnumarkaði. Það getur verið erfitt fyrir þær að finna vinnu jafnvel þótt þær séu góðir starfskraftar. Vinnumarkaðurinn er því ekki endilega alltaf opinn fyrir fjölbreytileika mannlífsins. Það hefur líka verið talað um það í sambandi við það að fara í örorkumat, að frekar verði skoðað hvað fólk getur gert. Hefur það 60% starfsgetu? En hvar eru þá úrræðin á vinnumarkaði? Ráða fyrirtæki eða opinberar stofnanir einhvern í 60% starf sem er í fullu fjöri og sprækur? Það er mjög áleitin spurning.

Skilyrðingin, eins og ég hef skilið hana, snýst um, og það á auðvitað að vera markmiðið, að hjálpa einstaklingi og að koma honum aftur út í lífið. Skilyrðin geta falist í því að mæta í sund kl. 9 á morgnana eða kl. 11. Eins og ég hef skilið það er framkvæmdin í Hafnarfirði ekki ómannúðleg, heldur á hún þvert á móti að hjálpa fólki til að verða eins virkir samfélagsþegnar og hægt er. Mér finnst það mjög mikilvægt mál. Ég vona því að frumvarpið verði lagað ef einhverjir vankantar eru á því, (Forseti hringir.) og að það nái fram að ganga.